133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[15:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þeir sem tala fyrir séreignarhugsjón í lífeyrissjóðunum ættu að tala svolítið varlegar um manneskjuleg viðhorf.

Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar og þakka honum fyrir að taka þetta mál upp. Hann vekur athygli á því að 2.300 öryrkjar verða fyrir umtalsverðri tekjuskerðingu. Þetta eru ekki bara einhverjir einstaklingar í þjóðfélaginu. Þetta er fólk úr tekjulægsta hlutanum á íslensku samfélagi. Hvernig má það verða?

Nú er það svo að lífeyrissjóðirnir hafa reglur um að sjóðsfélagar fá framreiknaðan lífeyri verði þeir fyrir þeirri ógæfu að missa starfsorku. Ákvæði eru um að í slíkum tilvikum skuli öryrkjanum tryggður lífeyrir sem þó er ekki hærri en hann aflaði með launavinnu sinni fyrir orkutapið. Þessar greiðslur úr lífeyrissjóðunum eru síðan reglulega uppfærðar því hugmyndin er sú að þrátt fyrir verðbreytingar haldi öryrkinn óbreyttum kjörum. En nú er komið að því að spyrja hvernig þessar verðbreytingar eru reiknaðar. Þær eru reiknaðar samkvæmt almennri neysluvísitölu, almennri verðlagsþróun í landinu en taka ekki tillit til launaþróunar, ekki til launavísitölunnar.

Á undanförnum árum hefur kaupmáttaraukning átt sér stað en þessi hópur setið eftir og í reynd orðið fyrir kjaraskerðingu sem er að birtast í því að lífeyrissjóðirnir ætla að klippa kjörin af þessu fólki. Ég hef tekið undir með Öryrkjabandalagi Íslands og það hef ég gert fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við höfum tekið undir þessi sjónarmið jafnframt því sem við höfum beint sjónum að vanda lífeyrissjóðanna, sem margir hverjir eru að greiða milli 40 og 50% til örorkubóta. Þar á ríkið að koma myndarlega að verki.

Hæstv. forseti. Nú heyrum við talsmenn stjórnarmeirihlutans hér á þingi gleðjast yfir því að þetta mál komi þeim ekki við. (Forseti hringir.) Þetta mál kemur þeim að sjálfsögðu við. Við erum að tala um kjör öryrkja í landinu og þau eru að verulegu leyti ákveðin í þessum sal og við þetta borð.