133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:39]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þakka þau svör sem gefin hafa verið, að þau skuli hafa verið gefin að minnsta kosti, en er ekki sáttur við þau. Ég spurði um tvennt. Ég spurði í fyrsta lagi hvað þessi fundur ætti að standa lengi og fékk engin svör við því og í öðru lagi hvað ylli þessum kvöldfundi. Taka má undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að það sé skiljanlegt að menn fari út í kvöldfund af því að umræðan hófst seint á degi. Ég sé nú ekki að það sé neinum að kenna sem hér stendur hversu seint á degi þessi umræða hófst. Það er alvanalegt að umræða á mánudegi hefjist með athugasemdum um störf þingsins, við hvað sem þær athugasemdir eru nú í raun og veru, og utandagskrárumræða er hér sett á með vilja og vitund forseta væntanlega til þess að koma henni að. Það má kannski deila um það hvort heppilegt er að hafa utandagskrárumræðu á mánudegi. Það er að minnsta kosti ekki ég sem kem þeim á á mánudögum til þess að tefja mál. Einhver annar tekur ákvörðun um það.

Hins vegar er það nokkuð ævintýraleg röksemdafærsla að kvöldfundur sé haldinn á mánudegi á níunda starfsdegi þingsins, 16. október, til þess að vera góður við hæstv. menntamálaráðherra, vegna þess að hún hafi þurft að bíða svo lengi með einhver mál sín. Það er eiginlega röksemdafærsla, forseti, sem ekki gengur upp. Jafnvel þótt menn kunni að vera persónulegir vinir og geri hvor öðrum greiða svona með einhverjum hætti þá er ekki gagnvart þingstörfunum og almenningi sem kaus okkur til veru hér á þinginu boðlegt að færa það fram sem ástæðu að forseti sé að vera vinsamlegur við hæstv. menntamálaráðherra. Ég veit ekki hvað þau rök eiga eiginlega að þýða. Ég er ekki viss um að það sé neinn vinargreiði við menntamálaráðherra að bjóða ráðherranum upp á þetta því að eins og ég var að reyna að koma frá mér áðan þá hefur það oft heldur lengt þingstörfin að setja hér á langa fundi á kvöldin og ekki skapað þann frið og þá sátt um afgreiðslu mála sem vera þyrfti og er eiginlega hlutverk forseta að reyna að beita sér fyrir.