133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:14]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi óska hæstv. sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórninni, svo og okkar Íslendingum til hamingju með þá ákvörðun að heimilaðar verði hvalveiðar í atvinnuskyni.

Íslendingar hafa haft það að leiðarljósi að nýta auðlindir sjávar með sjálfbærum og skynsamlegum hætti og með það að markmiði að byggja upp sterka stofna nytjafiska. Það er mikilvægt að hvalir séu jafnframt teknir með í reikninginn. Ástand hvalastofna hér við land er gott og margir stofnar þola vel skynsamlega sjálfbæra nýtingu.

Í upphafi er heimilað að veiða níu langreyðar og 30 hrefnur en samkvæmt upplýsingum frá Hafró mundu árlegar veiðar á allt að 200 langreyðum og 400 hrefnum samrýmast markmiðum um sjálfbæra nýtingu. Talið er að stofnar hrefnu og langreyðar séu nærri sögulegu hámarki.

Vísindamenn Hafró hafa áætlað að hvalir hér við land éti um 6 milljónir tonna af fæðu á ári, þ.e. um 3 milljónir tonna krabbadýra, 2 milljónir tonna af fiski og 1 milljón tonna af smokkfiski. Hrefnan lætur mest að sér kveða í fiskáti og étur milljón tonn af fiski. Til samanburðar má geta þess að heildarafli á Íslandsmiðum fiskveiðiárið 2005/2006 var 1,3 milljónir tonna samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu. Vísindamenn Hafró hafa leitt að því líkur að ef hvalastofnum verði haldið við 70% af sögulegu hámarki geti menn aukið afrakstur þorskstofnsins um 20% eða um allt að 60 þúsund tonn.

Verðmæti 60 þúsund tonna af þorski eru mikil fyrir íslenskt þjóðfélag og ef til vill sér í lagi byggðarlög sem byggja sitt á einni af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, þ.e. sjávarútvegi. Hve oft höfum við á hinu háa Alþingi ekki tekið umræðu um ástand þorskstofnsins. Það væri ábyrgðarleysi gagnvart framtíð sjávarútvegs og sjávarbyggða að bregðast ekki við með þessum hætti. Allar kannanir sem gerðar hafa verið sýna að mikill meiri hluti þjóðarinnar eða þrír af hverjum fjórum séu hlynntir hvalveiðum í atvinnuskyni og það kæmi mér ekki á óvart þó margir muni draga fána að hún í dag því miklum áfanga er náð.

Virðulegi forseti. Það er búið að skerpa skutla og nú er að hefja veiðar. Til hamingju með daginn!