133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður getur líka beðið um orðið og gert betur grein fyrir sínu máli því að það er margt óljóst í afstöðu hans.

Þeir sem standa að frumvarpinu vilja ekki selja Ríkisútvarpið. Helsti talsmaður frumvarpsins á síðasta þingi var hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar. Hann hefur lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir sölu Ríkisútvarpsins, að það verði hreinlega lagt niður eða selt. Aðrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru sama sinnis og ályktanir og yfirlýsingar frá flokknum hafa verið í þessa veru.

Síðan hef ég ekki fengið svör við nefskattinum, er Framsóknarflokkurinn sammála um það fyrirkomulag? Er Framsóknarflokkurinn sáttur við að hér verði pólitískt útvarpsráð sem endurspegli stjórnarmeirihlutann, geti ráðið og rekið útvarpsstjóra sem einn ræður mannahaldi og allri dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu? Er það Framsóknarflokknum að skapi?

Ég vildi síðan aðeins heyra (Forseti hringir.) eitt dæmi (Forseti hringir.) um hvað á að verða svona sveigjanlegra við að fela einum einræðisherra vald yfir þessari stofnun.