133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:26]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að svara spurningu hv. þingmanns frá því áðan, að framsóknarmenn vilja ekki útiloka neitt eitt rekstrarform frá öðru. Það sem einkennir Framsóknarflokkinn er að vilja fylgjast með tíðarandanum og bregðast við breyttum aðstæðum í samfélaginu. Við teljum að það sé skynsamlegra en að festast í einhverri fortíð og láta nútímann og framtíðina sigla fram hjá.

Af hverju að velja þetta form? Ég held að ég hafi nefnt það þrisvar sinnum á þessum degi, í ræðu minni og tvisvar sinnum í andsvari. Það er vegna þess að það form hefur gefist vel í atvinnulífinu. Um það eru flestir sammála. (Gripið fram í.) Þess vegna er þróunin sú að flest félög eru að verða að hlutafélögum, en hér er um að ræða opinbert hlutafélag af því að hlutafélagið verður í eigu hins opinbera. Það er enginn sem hefur í hyggju að selja það. Þetta er einfalt mál, hv. þingmaður.