133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

nám í fótaaðgerðafræði.

182. mál
[14:49]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er ágætt að fá að koma því á framfæri og rétt að koma að því strax í upphafi þessa svars, því það hefur greinilega mikið verið sagt og mikið skrifað varðandi þessa fyrirspurn, að ekki hefur verið gefið leyfi til að kenna fótaaðgerðafræði hér á landi en hins vegar liggur fyrir umsókn um viðurkenningu á námi í fótaaðgerðafræði. Hafa ber í huga, frú forseti, að menntamálaráðherra veitir skólum viðurkenningu samkvæmt 41. gr. framhaldsskólalaga og lögum nr. 108/1999, um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi. Viðurkenning getur annars vegar náð til framhaldsskóla þar sem starfsemi þeirra miðast við að veita nemendum undirbúning til starfa í atvinnulífinu í samræmi við almennar kröfur og/eða að starfrækja nám á framhaldsskólastigi, annaðhvort heildstætt nám samkvæmt aðalnámskrá eða hluta þess.

Menntamálaráðuneytið hefur haft til skoðunar tillögur að námskrá til kennslu í fótaaðgerðafræði sem Snyrtiskólinn í Kópavogi hyggst taka upp kennslu í, en sá skóli hefur haft viðurkenningu menntamálaráðuneytisins frá árinu 2002 til að kenna snyrtifræði. Í bráðabirgðasvari menntamálaráðuneytisins til skólans í sumar eftir að fyrri námskrárdrögin höfðu borist voru tilgreind ýmis skilyrði sem uppfylla þyrfti til að námskráin yrði samþykkt. Meðal annars þurfti að gera grein fyrir hvaða inntökuskilyrði skólinn setti, fyrirkomulagi starfsþjálfunar, útvega kennara sem uppfylltu faglegar kröfur og enn fremur að fullgera námskrána. Gefið var vilyrði fyrir viðurkenningu skólans til kennslu í fótaaðgerðafræði og þar með samþykki námskrárinnar að öllum þessum skilyrðum fullnægðum. Þá fyrst er hægt að fá viðurkenningu ráðuneytisins þegar þessi skilyrði hafa verið uppfyllt.

Eins og ég sagði hafa nú borist endurbætt námskrárdrög sem verða að sjálfsögðu send nýskipuðu starfsgreinaráði heilbrigðis- og félagsgreina til efnislegrar umsagnar. Það er rétt að menn hafi þetta í huga. Að fenginni þeirri umsögn verður fyrst tekin ákvörðun um viðurkenningu skólans til kennslu í fótaaðferðafræði á grundvelli samþykktrar námskrár í faginu eða hvort gera þurfi viðbótarkröfur til innihalds námsins.

Síðan spyr hv. þingmaður: „Hefur verið tekið tillit til niðurstöðu nefndar sem starfaði á vegum heilbrigðisráðuneytis og menntamálaráðuneytis við undirbúning náms í fótaaðgerðafræði?“ Hér er væntanlega átt við starfshóp sem ráðuneyti menntamála skipaði 1998 með fulltrúum Félags fótaaðgerðafræðinga, heilbrigðisráðuneytis og Ármúlaskóla til að athuga möguleika á að koma á fót námsbraut í fótaaðgerðafræði hér á landi og semja námskrá fyrir slíkt nám. Starfshópurinn skilaði tillögum til menntamálaráðherra árið 2000. Þar var lagt til að komið yrði á fót námi í fótaaðgerðafræði hér á landi um leið og aðstaða sé fyrir hendi. Námið yrði þá 157 einingar á framhaldsskólastigi — rétt er að geta þess að í Danmörku sem margir vitna til eru einingarnar sambærilegar við 73 á Íslandi — og stefna ætti að því að koma þessu námi fyrir við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Forsenda þess að skólinn gæti tekið við náminu var hins vegar að húsnæði hans yrði stækkað. Viðbygging við Ármúlann hefur dregist á langinn en er nú loks komin á skrið eins og menn þekkja eftir samkomulag Reykjavíkurborgar og ráðuneytisins um stækkun fimm framhaldsskóla. Vegna aðstöðuleysis í skólanum var því ekki hægt að hrinda tillögum starfshópsins í framkvæmd en það kemur væntanlega til athugunar með stækkun Fjölbrautaskólans við Ármúla. Starfshópurinn gerði einnig tillögur um innihald námskrár og verða þær að sjálfsögðu hafðar til hliðsjónar við námskrárgerðina sem nú er að hefjast.

Loks er spurt: „Hefur starfsmenntaráð verið með í ráðum?“ Ég tel mig þegar hafa gert grein fyrir aðkomu starfsgreinaráðs í heilbrigðis- og félagsgreinum en það kom fram hjá mér áðan að við munum að sjálfsögðu senda námskrárdrögin til umsagnar starfsgreinaráðsins í heilbrigðis- og félagsgreinum.