133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

nám í fótaaðgerðafræði.

182. mál
[14:53]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, fyrir að taka þetta mál upp. Hæstv. menntamálaráðherra kom inn á það áðan að ekki liggi fyrir leyfi fyrir þessu námi. Ég spyr því af hverju verið sé að bjóða upp á námið strax í janúar. Ég verð að viðurkenna að ég hef kynnt mér þetta mál ágætlega og finnst ýmsu vera ábótavant, ekki síst þar sem segir í lögum að þegar fara eigi af stað með slíkt nám verði að eiga sér stað samráð við fagstéttina. Það hefur greinilega ekki verið gert á byrjunarstigi málsins en er komið í farveg núna og ég vona að fagstéttin muni þá fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að. Ég held að menn hefðu kannski átt að hinkra aðeins við og gefa ekki græna ljósið svo fljótt. Í þessu felst líka viðurkenning ráðuneytisins, ef ég fer rétt með, þannig að nemendur geta fengið námslán og þar með viðurkennir ríkið auðvitað nám og greiðir með því vegna þess að ríkið greiðir með námslánum. Mér finnst röðunin í þessu máli ekki alveg vera rétt.