133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[15:38]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda alþingismanninum Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að taka þessi mál upp. Ég tel að full ástæða sé til að ræða um málefni þessa hóps og aðstandenda þeirra.

Í fyrsta lagi er spurt um bið á minnismóttöku á Landakoti þar sem koma 1.500 til 1.700 á ári hverju, þar af eru 200 til 300 nýkomur. Biðtími þar er nú fjórir til fimm mánuðir. Biðtími eftir þeirri þjónustu er ekki óeðlilegur í ljósi eðlis sjúkdómsins en fjögurra til fimm mánaða bið reynir mjög á starfsemina. Best væri að biðtíminn væri ekki lengri en um tveir mánuðir. Umræður eru um það innan spítalans hvaða möguleikar eru á að ná þeim tíma niður. Starfsfólk minnismóttökunnar leggur sig fram um að stytta biðtímann með nákvæmri skipulagningu. Von mín er sú að þennan tíma megi stytta.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hve margir sjúklingar rúmast á þeim sérhæfðu dagdeildum sem hér eru og hve margir sjúklingar með heilabilun bíði eftir dagvist. Hve löng er bið hjá þeim sem lengst hafa beðið?

Í dag bíða 85 eftir dagvistun heilabilaðra á höfuðborgarsvæðinu. 19 umsóknir eru óafgreiddar eða frá liðnu ári. Tíu eru mjög brýnar og samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði mér í morgun ættu þeir að geta fengið lausn sinna mála á næstu vikum. Á árinu hefur verið úthlutað 71 plássi í dagvistun. Rúmlega 100 umsóknir hafa verið teknar af biðlistanum á þessu ári, sem skýrist af úthlutun dagvistarrýma, hjúkrunarrýma og því að plássi hefur verið hafnað þegar það hefur boðist.

Fjöldi dagvistarrýma á svæðinu, með Drafnarhúsi sem var ánægjuleg viðbót á árinu ásamt fjögurra rýma viðbót á Eir, er samtals 117 rými: 24 á Eir, 20 í Drafnarhúsi, 15 í Fríðuhúsi, 20 í Hlíðabæ, 20 í Roðasölum og 18 á Lindargötu. Á landinu öllu eru 129 dagvistarrými skilgreind fyrir minnissjúka en víðast hvar um landið nýtast hvíldarrými líka heilabiluðum.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hve mörg pláss í skammtímadvöl eða hvíldarinnlögn eru fyrir heilabilaða hér á landi og hversu löng bið er eftir skammtímainnlögn. Á Landakoti eru tvö skilgreind pláss til hvíldarinnlagna. Tvö verða í Roðasölum í lok nóvember fyrir utan pláss, eins og t.d. á Eir, sem nýtast heilabiluðum en eru ekki eyrnamerkt þeim ef svo má að orði komast. Þar eru t.d. sex pláss sem nýtt eru til hvíldarinnlagna almennt, sem nýtast þessum sjúklingahópi líka eins og raunar gerist víða um land.

Plássum fyrir hvíldarinnlagnir þyrfti að fjölga. Til dæmis telja sérfræðingar að á Landakoti að þau ættu að vera fjögur en þau eru tvö í dag. Í þessu sambandi er brýnt að hafa í huga að öll þessi úrræði spila vitaskuld saman. Það verða 30 ný rými fyrir heilabilaða á nýja hjúkrunarheimilinu við Suðurlandsbraut. Þegar það kemur mun þrýstingurinn að sjálfsögðu almennt minnka.

Bið eftir skammtímainnlögn er mjög breytileg. Hún sveiflast mjög eftir aðstæðum. Samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði mér í morgun er t.d. ekki bið núna. En stundum myndast teppa. Upp koma brýn mál sem starfsmenn reyna að leysa úr. Það leiðir að næstu spurningu þar sem spurt er um fyrirvaralausa skammtímainnlögn. Það kemur oft í hlut minnismóttökunnar að leysa úr slíkum vandamálum sem menn reyna þó að koma í veg fyrir með skipulagningu. En þegar það dugir ekki er bráðaspítalinn eðlilega sú aðstoð sem gripið er til. Þar er fólk lagt inn uns tekist hefur að finna viðhlítandi úrræði sem menn fara að sjálfsögðu strax í að finna.

Í fimmta lagi spyr hv. þingmaður um hlutfall af hjúkrunarrýmum sem sérstaklega eru ætluð heilabiluðum og hve mörg þau þyrftu að vera hlutfallslega. Á hjúkrunarheimilum eru 70–80% af hundraði vistmanna með minnisskerðingu að einhverju leyti. Af þessum hópi er um helmingur með væga heilabilun og um 15–20% ættu að vera á sérstökum deildum og eru á sérstökum deildum. Nú þegar eru þeir aðilar, 15–20% af þessum hópi, í rýmum sem eru sérútbúin fyrir þann sjúklingahóp.

Í sjötta lagi er spurt hvort til standi að koma á sérhæfðri þjónustu og ráðgjafarmiðstöð fyrir sjúklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra. Í dag er minnismóttakan sjálf á Landakoti kjarninn í hinni sérhæfðu þjónustu og ráðgjöf sem við veitum hér á landi. Þar eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og aðrir starfsmenn til að veita þjónustuna. Þar er líka mökum og aðstandendum veitt þjónusta. Þar fara fram stuðningsviðtöl og annað sem nauðsynlegt er talið. Ég tel eðlilegt að við eflum minnismóttökuna á Landakoti sem hina sérhæfðu minnismóttöku á Íslandi.

Ég vil líka benda á að við erum að vinna að því núna með Landssambandi eldri borgara að stórefla upplýsingar og ráðgjafarþjónustu við aldraðra með því að styrkja starfsmann á þeirra vegum. Við erum að vinna að því núna.