133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

hvalveiðar.

[10:59]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg stórfurðulegt að verða vitni að því að stjórnarandstaðan kemur hér upp og kallar eftir samstöðu. Þessi tætingslega stjórnarandstaða sem hefur ekki einu sinni þorað að segja neitt upphátt. Hver er afstaða hennar til þessa máls?

Það er undarlegt að vita til þess að hv. stjórnarandstaða reynir að tala sig fram hjá því að greina frá afstöðu sinni til hvalveiða með því að reyna að tala um allt aðra hluti. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega þannig, eins og ég hef marglýst hérna yfir, og lýsti yfir þann 17. október, á þriðjudaginn var, og lýsti því yfir hérna í morgun, að formlega séð er það á valdi sjávarútvegsráðherra að taka þessa ákvörðun. Það var gert að afloknu ítarlegu samráði í ríkisstjórn, eins og hæstv. landbúnaðarráðherra greindi frá. Og ríkisstjórnin stendur vitaskuld heils hugar að baki þessari ákvörðun sjávarútvegsráðherrans. Það er augljóst mál og það blasir við. Það þarf ekkert um það frekar að tala. Þannig er þetta og það liggur fyrir.

Svo er það hitt sem hér hefur verið rætt um. Ég fór ítarlega yfir það á þriðjudaginn var hvernig lagaumhverfinu er háttað. Fyrir liggur að það eru til staðar sérlög um hvalveiðar sem gefa allar þær heimildir sem þarf að gefa í þessum efnum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem nú er verið að útfæra.

Það er þannig að þegar málin eru að koma upp eftir 20 ár og ákvörðun er tekin að hún er ekki tekin þannig að ég hafi verið að anda ofan í hálsmálið og fylgjast nákvæmlega með öllum handarverkum þeirra sem ef til vill gætu stundað hvalveiðar í landinu. Þessi ákvörðun er tekin þegar hún er orðin fullbær til að slík ákvörðun sé tekin. Þá er farið í það af hálfu þeirra sem eiga að vinna innan þessarar löggjafar að aðlaga sig þeirri ákvörðun. Það liggur fyrir að undirbúningur hefur staðið yfir, bæði hjá Hval hf. og hjá ýmsum öðrum í hvalstöðinni í Hvalfirði, fyrir þetta ef til ákvörðunar kæmi. Síðan er ákvörðunin tekin. Þá kemur í ljós að það er ýmislegt sem þarf að uppfylla frekar. Þá er farið í það.

Eins og hæstv. landbúnaðarráðherra sagði eru þessi mál í mjög eðlilegum farvegi milli þeirra stofnana og þeirra aðila sem eru til þess bærir (Forseti hringir.) að fjalla um málið. Þessi tilraun stjórnarandstöðunnar til að reyna að þyrla upp (Forseti hringir.) moldviðri er bara tilraun til þess að felast í moldviðrinu vegna þess að hún (Forseti hringir.) hefur ekki afstöðu í þessu einfalda máli frekar en svo mörgum öðrum. Tætingslegt lið.