133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.

[11:23]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Enn og aftur kveður stjórnarandstaðan sér hljóðs um aðgerðir eða öllu heldur aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum barna með geðraskanir. Eins og öllum er kunnugt lét heilbrigðisráðherra Kristján Má Magnússon vinna skýrslu um aukna samþættingu í þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Þetta var góð skýrsla og þarna komu margar góðar tillögur fram þann 31. ágúst 2004.

Þann 5. apríl síðastliðinn spurði ég hæstv. heilbrigðisráðherra um þessa skýrslu og viti menn, skýrslan var komin undir stól. (Gripið fram í.) Á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins kom fram að þrjú ráðuneyti væru að skoða skýrsluna, menntamálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið. Ég bar því upp fyrirspurn til þeirra ráðherra. Báðir fögnuðu skýrslunni. Hvorugur kannaðist við að vera að vinna í málinu og vísuðu á heilbrigðisráðuneytið.

Í svari heilbrigðisráðherra kom jafnframt fram:

„Ég hef fullan hug á að eiga gott samstarf við alla þá sem koma að þessum málum og mun leggja mitt af mörkum til þess að svo verði á næstunni.“

Frú forseti. Nú er liðið hálft ár og ekkert að gert. (Gripið fram í.)

Þegar ný grunnskólalög litu dagsins ljós 1995 var gerð sú meginbreyting á VIII. kafla um sérfræðiþjónustu skóla að meðferð var ekki lengur skilgreind sem hlutverk hennar. Tilgangurinn með þessum breytingum virðist hafa verið sá að þrátt fyrir yfirfærslu grunnskólakerfisins til sveitarfélaga ætti ríkið að halda áfram að sinna þeim meðferðarþætti sem sérfræðiþjónusta skóla hafði sinnt. Hins vegar voru engar ráðstafanir gerðar til að stofnanir á vegum ríkisins gætu sinnt þessu verkefni. Aðgerðaleysi ríkisins hefur knúið sveitarfélög eins og til dæmis Akureyri til að bregðast við og setja upp úrræði. En hver á að borga? Ætlar ríkið að greiða kostnaðinn við slík úrræði eins og til dæmis Hlíðarskóla á Akureyri? Megum við eiga von á nokkur hundruð milljón króna bakreikningum vegna aðgerðaleysis ríkisins?

Frú forseti. Aðgerðaáætlun. Nú er búið að steypa saman nefndarálitum, skýrslum og svo framvegis í eitt fallegt orð, loforð: Aðgerðaáætlun. (Forseti hringir.) Frú forseti. Ekki fleiri áætlanir. Aðgerðir. (Gripið fram í.)