133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni.

[11:56]
Hlusta

Árni Steinar Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu um hraðakstur. Þjóðin er raunar lömuð og veit ekki sitt rjúkandi ráð varðandi umferðina, sérstaklega dauðsföllin og örkumlin. Að mörgu leyti verður mér oft hugsað núna til sjöunda áratugarins þegar ég var unglingur og maður fór að kvíða fyrir vondum veðrum vegna þess að við vorum að missa á hverju ári marga sjómenn í hafið. Það var stóra vandamálið okkar á þeim tíma. Menn sátu hnípnir heima í vondum veðrum og áttu von á hinu versta.

Í rauninni er staðan í umferðarmálum núna orðin sú sama. Þegar þjóðin fer á flakk á stórum stundum vegna skemmtana eða annars situr almenningur heima og á von á hinu versta enda er það tilfellið í langflestum tilfellum núorðið og stóra málið í þessu öllu er hraðakstur. Við gerðum stórátak í öryggismálum sjómanna á áttunda áratugnum. Það var gert með fræðslu, með eftirliti, með áróðri, sérstaklega fræðslu fiskimannanna sjálfra. Þar náðist gríðarlegur árangur eins og menn vita.

Virðulegur forseti. Ég held að sömu aðferðir dugi og að allir styðji hvaða aðferðir sem er til þess að stemma stigu við þessari vá og við verðum að taka með í reikninginn gerð bíla, fræðsluna, eftirlitið og þar með löggæsluna, áróðurinn og vegakerfið og auðvitað sektirnar líka. Við styðjum áreiðanlega öll hæstv. samgönguráðherra í þeirri vinnu.

Ég spyr hæstv. samgönguráðherra hvort hann telji koma til greina að gera kröfu um gerð bíla fyrir akandi fólk á aldursbilinu frá bílprófi og upp að 25 ára aldri.