133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[12:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Áður en umræðan um málið hefst hef ég hug á að fá svar við einni spurningu hjá hæstv. ráðherra. Ég sé að það eru ákveðnar breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu frá fyrra frumvarpi sem var hér til meðferðar á síðasta þingi en engin þeirra lýtur að greiðsluþátttöku Reykjavíkurborgar. Í meðförum nefndarinnar á síðasta ári komu í ljós afar skýrar óskir frá fulltrúa Reykjavíkurborgar sem kom fyrir menntamálanefnd um að fram færu einhvers konar samtal á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um greiðsluþátttöku Reykjavíkurborgar. Fulltrúinn kom með ákveðnar hugmyndir í þeim efnum, þ.e. úr því að Seltjarnarnesbær ætti að losna af önglinum í þessum efnum og að hætta að fjármagna sveitina að hluta væri kannski eðlilegt að málið yrði tekið upp í heild sinni og efnt yrði til sérstakra viðræðna allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um þátttökukostnað í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Nú langar mig að vita frá hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið gert eða hvort eitthvað hafi verið leitað til Reykjavíkurborgar í þessum efnum.