133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[13:30]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. forseta ræðum við frumvarp til laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hæstv. menntamálaráðherra hefur talað fyrir frumvarpinu.

Fyrir okkar hönd í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefur hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gert grein fyrir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til þessa máls.

Ég vil bæta örfáum orðum við frá eigin brjósti og byrja á að taka undir þá röksemd sem kom frá hv. þm. Merði Árnasyni, að í reynd væri hægt að aðskilja þetta frumvarp frá frumvarpi ríkisstjórnarinnar um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.

Það var athyglisvert að hlýða á málflutning hæstv. menntamálaráðherra hvað þetta snertir því hún sagði að þetta frumvarp væri óaðskiljanlegur hluti af markaðsvæðingu Ríkisútvarpsins eða frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Enda segir í upphafi greinargerðar með frumvarpinu einmitt á þá leið að frumvarpið sé liður í endurskipulagningu á rekstri Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytið hefði unnið að samningu frumvarps þar sem ráðgert sé að breyta rekstri Ríkisútvarpsins í hlutafélag. Og af þeim sökum, vegna þessa, sé eðlilegt að fella úr gildi þá lagaskyldu að Ríkisútvarpið greiði sem nemur 25% af rekstri hljómsveitarinnar. Þannig að ríkisstjórnin sér þetta sem óaðskiljanlega hluta af hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Það er athyglisvert að vegna markaðsvæðingarinnar þurfi að skera á tengslin milli Ríkisútvarpsins annars vegar og Sinfóníuhljómsveitarinnar hins vegar.

Mig langar til að gera þessi nánu tengsl á milli þessara tveggja stofnana að umfjöllunarefni í fáeinum orðum. Rifja upp að það var Ríkisútvarpið og tónlistardeildin þar sem hafði forgöngu um að hrinda Sinfóníuhljómsveitinni af stokkunum fyrir 56 árum. Því þá var það gert með samþykki yfirstjórnar Ríkisútvarpsins. Það fékkst styrkur frá ríkinu og Reykjavíkurborg sem veittur var á fyrstu árunum en það gekk á ýmsu á þessum uppvaxtarárum stofnunarinnar, Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hún lenti í mikilli fjárhagskrísu í upphafi 7. áratugarins en þá hljóp Ríkisútvarpið undir bagga og tryggði stöðu hljómsveitarinnar í meira en tvo áratugi.

Það var svo ekki fyrr en árið 1982 að sett voru lög um Sinfóníuhljómsveitina og er sá lagagrunnur enn við lýði. Þar var kveðið á um að hlutur Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands skyldi vera 25% en á móti bæri Sinfóníuhljómsveitinni að veita stofnuninni þjónustu sem skilgreind var í ítarlegum samningi sem gerður var milli þessara aðila.

Hann var í þremur liðum. Í fyrsta lagi, heimild til að útvarpa beint eða síðar upptökum af öllum áskriftartónleikum hljómsveitarinnar og öðrum tónleikum á hennar vegum. Í þessu var innifalin þátttaka stjórnenda, einleikara og söngvara. Í öðru lagi, heimild til að sjónvarpa tónleikum eða taka þá upp fyrir sjónvarpið til flutnings án endurgjalds. Í þriðja lagi, vinna við upptökur í þágu Ríkisútvarpsins, 25 vinnulotur á ári, allt að 3½ klukkustund hver lota, ásamt ótakmörkuðum flutningsrétti á upptökum.

Hvað fyrsta atriðið snertir þá hefur því verið bærilega sinnt því útvarpað hefur verið um 35 sinfóníutónleikum á ári, eða sem svarar til 80–90 klukkustunda af útvarpsefni. Ég held það deili enginn um að tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands sé glæsilegur þáttur í íslenskum tónlistarflutningi Rásar 1 og mikil skrautfjöður í dagskránni. Þess má geta að þetta efni hefur einnig verið notað bæði í endurflutningi og í efnisskiptum við erlendar útvarpsstöðvar.

Varðandi annan liðinn, þ.e. sjónvarpsheimildina, þá hefur hún ekki verið nýtt sem skyldi. En þarna eru að sjálfsögðu mikil verðmæti sem Ríkisútvarpið hefur vannýtt.

Hvað þriðja liðinn áhrærir, þá var upptökutími Ríkisútvarpsins lengi vel nýttur bærilega. En á því hefur slaknað á síðustu árum. Eins og ég gat um var talað þar um 25 vinnulotur. Upphaflega var talað um 5 vinnuvikur. Það er um 10% af virkum árlegum starfstíma hljómsveitarinnar og ef þetta væri nýtt erum við að tala þarna um á sjötta tug millj. kr. í verðmætum.

Ég vil minna á að ástæðan fyrir því að Ríkisútvarpið gerði sitt til að Sinfóníuhljómsveit Íslands varð til, var til að styrkja og bæta tónlistarflutninginn í Ríkisútvarpinu. Þetta var til að styrkja Ríkisútvarpið. Þegar þessi samningur er skoðaður, bæði hvernig hann hefur verið nýttur og einnig hitt hvernig hann hefur verið vannýttur, þá kemur í ljós að framlag Ríkisútvarpsins til Sinfóníuhljómsveitarinnar hrekkur varla til að dekka þann kostnað. Þannig að það eru mikil áhöld um hvort Ríkisútvarpið fer vel út úr þessum skiptum. Ég hef miklar efasemdir um það.

Auk þess sem ég minnist þess vel, sem starfsmaður Ríkisútvarpsins, hvernig sjónarmið þáverandi forstöðumanna stofnunarinnar voru, þ.e. Andrésar Björnssonar, Jóns Þórarinssonar og þeirra sem þá réðu ríkjum, hve mjög þeir báru hag Sinfóníunnar fyrir brjósti, Ríkisútvarpsins vegna. Ekki aðeins vegna Sinfóníunnar heldur Ríkisútvarpsins vegna. Þeir litu jafnan svo á að Ríkisútvarpið ætti að sækjast eftir því að axla menningarlegar skyldur. Þetta væri veigamikill þáttur í starfsemi stofnunarinnar.

Nú er hins vegar talað um Sinfóníuna sem bagga á Ríkisútvarpinu og að bæta þurfi stöðu og hag Ríkisútvarpsins með því að létta þeim bagga af stofnuninni. Þannig hefur það oft verið orðað í þessari umræðu. Það var hins vegar ekki upp á teningnum í máli hæstv. menntamálaráðherra í framsögu hennar áðan. Því eins undarlegt og það kann nú að hljóma sagði hún að frumvarpið væri sett fram til að efla tengslin á milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníunnar ef eitthvað væri. Ég man ekki nákvæmlega hvernig hæstv. ráðherra orðaði það. En eitthvað á þá leið að frumvarpið yrði og væri til þess fallið að efla tengslin á milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníunnar.

Ég spyr þá: Í ljósi þessa samnings sem nú er til staðar sem ekki hefur verið uppfylltur, hvers vegna í ósköpunum beitir hæstv. menntamálaráðherra sér ekki fyrir því að Ríkisútvarpið sæki rétt sinn til Sinfóníunnar? Og axli auk þess þær menningarlegu skyldur sem því ber að axla?

Mér finnst óskaplega dapurlegt hvernig komið er fyrir ríkisstjórninni og þeim sem ráða ríkjum í Ríkisútvarpinu, að vilja skera á þessi tengsl. Mér finnst það óskaplega dapurlegt. Áður kvað við annan tón innan úr Sjálfstæðisflokknum. Þar hafa verið mjög sterkar raddir sem hafa talað í alveg gagnstæða átt og ég minni þar á greinaskrif t.d. Jóns Þórarinssonar tónskálds, fyrrverandi dagskrárstjóra hjá Ríkisútvarpinu, sem hefur varað mjög við þessu í blaðagreinum sem hann hefur skrifað.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp að sinni. Það á eflaust eftir að koma aftur til umfjöllunar hér í þingsölum fari svo að samstaða náist um það í menntamálanefnd að setja þetta aftur fyrir þingið. En ég vil hins vegar ítreka þá kröfu sem fram hefur komið frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að frumvarp þingflokksins um Ríkisútvarpið verði tekið hér á dagskrá, tekið til umfjöllunar samhliða því sem hæstv. menntamálaráðherra talar um sem óaðskiljanlegan pakka, Ríkisútvarpið, Sinfóníuna og annað frumvarp, tekið samhliða til umfjöllunar í menntamálanefnd og sent út til umsagnar samhliða, þannig að allir þeir sem fái frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið og þá þessi tengsl sem skera á við Sinfóníuna, til umfjöllunar, fái þann pakka heildstæðan.

Ég frábið mér að þurfa eina ferðina enn að hlusta á að stjórnarandstaðan sé andvíg þessu. Við vorum andvíg því að þessi mál yrðu rædd í einum og sama ræðutímanum. Við vildum að þau færu öll saman, reyndar í annarri forgangsröð en ríkisstjórnin vildi, og yrðu öll rædd í samhengi. En hæstv. menntamálaráðherra er að reyna að drepa þessu máli á dreif og blekkja fólk með því að segja að við höfum hafnað því að svo yrði gert vegna þess að við vildum ekki að þau yrðu rædd í sama ræðutímanum. Þetta eru útúrsnúningar og ég ætla að vona að hæstv. ráðherra reyni ekki eina ferðina enn að drepa málinu þannig á dreif. Þess vegna spyr ég alveg beint: Finnst hæstv. menntamálaráðherra ekki eðlilegt að þau frumvörp sem liggja fyrir þinginu um breytingar á stjórnskipan Ríkisútvarpsins, komi samhliða til afgreiðslu og að þeir sem fá málin til umfjöllunar fái þau samtímis þannig að hægt sé að fjalla um þá valkosti sem Alþingi býður upp á?