133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[13:43]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það tal sem hv. þingmaður nefnir útúrsnúninga þá held ég að í því samhengi sé hollt að benda einfaldlega á að stjórnarandstaðan hafnaði því að ræða þessi tvö mál saman, Ríkisútvarpið og Sinfóníuna. Stjórnarandstaðan getur því ekki í sömu mund og hún hafnaði að ræða málin saman í þingsal krafist þess að málin verði samferða þegar þau eru komin úr þingsalnum. Stjórnarandstaðan sjálf kom í veg fyrir að málin væru rædd saman hér inni í þingsal.

Það er líka hollt fyrir okkur, herra forseti, að rifja upp sögu í þessu samhengi. Ég man að fulltrúi Vinstri grænna, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, kom að máli við mig þegar Ríkisútvarpið var til umræðu fyrir páska, fyrir einu og hálfu ári síðan. Þá var sérstaklega farið fram á það við mig að bíða með umræðuna til að hægt væri að ræða tvö mál saman. Hvaða mál? Fjölmiðlafrumvarpið og Ríkisútvarpið. Svo allt í einu koma menn hingað og segja: Nei, það má ekki ræða þau saman en samt saman. Menn verða að fara að ákveða sig í þessu máli.

Málið er bara að menn eru að reyna tefja umræðuna. Það er eins og það megi ekki segja það hérna í þingsalnum. Það er eins og það megi ekki segja það úr þessu ræðupúlti að stjórnarandstaðan er með sínum tækjum, sínum lýðræðislegu tækjum, sem heita þingsköp Alþingis, að tefja ákveðna umræðu. Þetta vitum við og þekkjum og þetta þekkir hv. þm. Ögmundur Jónasson manna best.