133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

almenn hegningarlög.

20. mál
[14:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það sé svo sem ekki þörf fyrir að hafa langa umræðu um þetta mál núna, enda tókum við umræðu um það í vor er leið þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu í byrjun apríl síðastliðnum.

Það sem mig langaði að segja hér í ræðustól er eingöngu að ítreka þau sjónarmið mín að hér er afar margt fært til betri vegar og mikill fengur að þeim breytingum sem verið er að gera. Líka er verulegur fengur að þeirri greinargerð sem fylgir með frumvarpinu, því að hér er afar vel útskýrt á hvern hátt frumvarpshöfundur kemst að þeim niðurstöðum sem komist er að og rökstuðningur fyrir þeim breytingum sem verið er að gera þar af leiðandi mjög góður. Það er auðvitað alltaf til bóta þegar svo er. En eins og kunnugt er, og hæstv. ráðherra tók fram, tók Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, að sér að semja þau frumdrög sem unnið hefur verið með. Ég kann henni miklar þakkir fyrir því eins og ég sagði hefur hún farið mjög vel í saumana á erfiðum lagaákvæðum og að mörgu leyti náð góðri lendingu.

Þó eru nokkur atriði sem ég veit að eiga eftir að verða til umfjöllunar í nefndinni. Það eru t.d. atriði sem varða breytingarnar á 194. gr. laganna, ákvæði er varða kynfrelsi og þá ekki síst kynfrelsi kvenna. Það sem hefur verið gagnrýnt þar er að enn skuli verknaðaraðferðin skipta jafnmiklu máli og raun ber vitni, þ.e. að í fyrstu setningu frumvarpsgreinarinnar skuli vera tekið fram að til að nauðgun geti talist nauðgun þurfi ofbeldi eða hótanir að koma til. Engu að síður er þó hugtakið útvíkkað að ýmsu leyti í greininni þar sem ákveðið er að til ofbeldis teljist sömuleiðis svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum, eða með öðrum sambærilegum hætti. Sömuleiðis er í 2. mgr. greinarinnar talað um að það sé einnig nauðgun og varði sömu refsingu og mælt er fyrir í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök.

Það sem er mikilvægt í þessum efnum er auðvitað að rétturinn til kynlífs sé á hreinu og hver það er sem í raun og veru gefur samþykki sitt til kynmakanna. Það kemur fram í greinargerðinni að lönd hafi farið ólíkar leiðir í þessum efnum, norrænu löndin hafi farið aðrar leiðir en hin engilsaxnesku. Það er auðvitað rétt að menn hafa verið að skilgreina þetta út frá ólíkum sjónarmiðum en mér finnst skipta verulegu máli að skilgreiningin sem við nýtum okkur hér á landi verði sú sem í sjálfu sér gerir það kynlíf að nauðgun sem ekki hefur legið samþykki fyrir. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við eigum eftir að fara verulega vel yfir.

Réttarvernd barna er aukin til mikilla muna í þessu frumvarpi og er það auðvitað vel. Varðandi fyrningarfrest kynferðisbrota gerði ég þá játningu hér í ræðustóli í vor að ég hefði snúist fram og til baka í því máli og get gert þá játningu aftur. Það þvælist enn fyrir mér hvort hér sé gengið nógu langt eða hvort hér sé um hina einu réttu leið að ræða. Enn hneigist ég til þess að þetta sé í öllu falli til verulegra bóta en ég áskil mér enn rétt til að skoða hvort ég telji þar með að nóg sé að gert.

Virðulegi forseti. Að lokum eru hér ákvæði er varða vændi. Ég hef lýst yfir ánægju minni með að hæstv. ráðherra skuli leggja til að aflétt sé refsingu af þeim sem leiðast út í vændi, að refsinæmi þess verknaðar að selja aðgang að líkama sínum sé í sjálfu sér aflétt. Hins vegar hefði ég viljað fara aðrar leiðir varðandi kaup á vændi. Ég hefði viljað sjá það lagt til í þessu frumvarpi að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð og þar með yrði ábyrgðin af vændinu sett á herðar þeim sem býr til eftirspurnina en ekki þeim sem leiðast út í að selja líkama sinn.

Þetta segi ég hér vegna þess að ég hef verið frumkvöðull að flutningi frumvarps varðandi það að gera kaup á vændi refsiverð. Ég hef ekki lagt fram sjálfstætt þingmál á þessu þingi varðandi þá leið en kem til með að láta á það reyna innan nefndarinnar þegar umfjöllun um málið fer fram hvort sátt náist um að gera breytingartillögu við þetta frumvarp í þeim efnum. Ég kem því til með að reyna að beita mér fyrir því áfram að sænska leiðin verði farin og það verði gert refsivert að kaupa vændi.

Ég tel að nefndin eigi mikla vinnu fram undan við þetta mál og treysti því auðvitað og veit að hv. formaður nefndarinnar kemur til með að stýra þeirri vinnu vel og af röggsemi eins og hans er von og vísa. Ég geri ráð fyrir að við komum til með að kalla talsvert af gestum fyrir nefndina sem koma þá til með að varpa frekara ljósi á þau sjónarmið sem uppi eru í þessum vandmeðfarna málaflokki.