133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:13]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, að deilur hafi verið um málið á Alþingi þegar það var afgreitt og vissulega voru ekki allir á einu máli. Því er mjög auðvelt að halda fram og finna stað. En deilur voru kannski ekki eins háværar og ætla mátti af ummælum hv. þingmanns, því þetta mál er afgreitt frá iðnaðarnefnd með átta atkvæðum. Aðeins einn nefndarmanna stóð ekki að meirihlutaáliti. Þegar greidd voru atkvæði um málið að lokum í þinginu féllu atkvæði þannig að 45 studdu málið. Enginn greiddi atkvæði á móti. En fimm greiddu ekki atkvæði. Af þeim 50 sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni voru 45 sem studdu það, fimm sem sátu hjá og enginn sem greiddi atkvæði á móti.

Þetta vildi ég taka fram vegna þess að það var mjög víðtæk samstaða á Alþingi að stíga þetta skref, jafnvel þótt menn væru meðvitaðir um það, eins og alltaf er þegar við förum inn í eitthvað nýtt umhverfi, að því fylgir óvissa og í óvissunni gat falist að breytingar yrðu að einhverju leyti ekki okkur að skapi sem stóðum að málinu. Það er auðvitað rétt að taka það fram líka.

Ég er alveg sammála því sem kom fram í máli hv. þingmanns að eðlilegt er að taka málið út, gera úttekt á málinu og skoða hvernig til hefur tekist og gera síðan aðgerðir í framhaldi af því, eins og ég var líka svolítið að leggja áherslu á í máli mínu.

Ég held að við ættum ekki bara að gera úttekt á hækkun rafmagnsverðs heldur áhrifum laganna í heild. Hvernig til hefur tekist með alla þætti málsins, eins og framleiðsluþáttinn, dreifingarþáttinn, jöfnunarþáttinn og annað. Þannig fáum við mat á heildaráhrifum laganna, því það kann að vera jákvætt að sumu leyti (Forseti hringir.) og öðru leyti ekki. Þá vitum við hvað það er sem við þurfum að laga.