133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:17]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hlynntur því og tek undir það sem fram kemur í máli flutningsmanna að gera úttekt á þessum þætti málsins. Ég er að vísu með efasemdir um að nægilega langur tími sé liðinn frá því að lögin tóku gildi til þess að unnt sé að leggja raunhæft mat á breytingarnar en ég skal ekki gera ágreining um það og er tilbúinn að stuðla að því að málið fái framgang eins og það er.

Ég vil þó láta skoða alla þætti málsins. Eins og komið hefur fram í máli þingmanna horfa þeir til jöfnunarþáttarins. Hvernig hefur hann breyst? Í öðru lagi eru svo niðurgreiðslur og í þriðja lagi samkeppnisþátturinn. Ég vil síðan bæta við framleiðslu- og dreifingarþættinum. Ég held að við ættum að skoða alla þessa þætti og sjá hvernig til hefur tekist og átta okkur á því hvar við þurfum að gera breytingar til að ná því fram sem til stóð. Ég held t.d. að menn séu orðnir býsna kaþólskir í reglum um niðurgreiðslur eða færslu á kostnaði á milli einstakra notenda sem var drjúgur þáttur í gamla raforkufyrirkomulaginu. Ég held að menn hafi farið of langt í hina áttina, að láta hvern þátt standa undir sér og niðurgreiðslur komi síðan úr ríkissjóði, í stað þess að láta raforkunotendur sjálfa um að greiða hluta af jöfnuninni.

Ég held t.d. að framleiðsluþátturinn sé áhugaverður, sérstaklega fyrir landsbyggðina því hann opnar fyrir möguleika manna heima í héraði til að standa fyrir framleiðslu á rafmagni og fá til sín aðila til að nota raforkuna. Það mundi brjóta upp miðstjórnarvald sem áður var í höndum Landsvirkjunar og menn í hverjum landshluta gætu þannig haft meiri tök á atvinnuuppbyggingu en áður.