133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:30]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert sem fram kemur í umræðunni um þetta mál, að það er grundvallarmunur á afstöðu einstakra flutningsmanna til málsins sem gera á úttekt á. Fulltrúi Frjálslynda flokksins telur ekki rétt að stíga til baka úr markaðsvæðingunni heldur beri að reyna að gera bragarbót þar sem þörf er á. En fulltrúi Vinstri grænna lýsir yfir algerri andstöðu við markaðsvæðingu. Hann vill hafa raforkuframleiðslu, dreifingu og sölu sem opinbera þjónustu.

Það eru út af fyrir sig tvær ólíkar skoðanir á þessu máli. Ég er hræddur um að hv. þm. Jón Bjarnason þurfi frekar að gera grein fyrir því hvers vegna hann telur að til framtíðar litið verði það besta kerfið. Af hverju hafnar hann því að menn hafi frelsi og svigrúm til að nýta auðlindir landsins án þess að fá leyfi hjá einhverjum æðsta presti í Landsvirkjun eða ríkisstjórninni? Af hverju er hv. þm. Jón Bjarnason og flokkur hans á móti möguleikum manna heima í héraði til að nýta sér orkulindirnar til atvinnuuppbyggingar á sínu svæði? Það felst í orðum hans að hann er á móti því að einstaklingar geti virkjað, framleitt rafmagn og selt, það eigi að vera hlutverk hins opinbera.

Það er því mikill munur á afstöðu flutningsmanna þessa máls, virðulegi forseti.