133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[16:01]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um að jafna stöðu og rétt karla og kvenna, jafnréttislögin, og stjórnarandstaðan hefur sameinast um flutning á einu máli sem er stefnumarkandi um að ná fram auknu jafnrétti karla og kvenna.

Sú úttekt sem hér hefur verið minnst á, um að nánast ekkert hafi miðað áfram í þeim málaflokki á síðastliðnum tíu árum, vekur athygli og undirbyggir enn þá frekar að tekið verði á þessum málum og jafnframt að farnar verði leiðir sem tryggi að frekari árangur náist svo ekki ríki áfram sú kyrrstaða sem ríkt hefur á undanförnum áratugum. Við leggjum til að það verði gert með því að tryggja að Jafnréttisstofa eigi rétt á að fá upplýsingar um laun fólks, karla og kvenna, og krefji sveitarfélög, stofnanir, atvinnurekendur og félagasamtök um upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að láta fara fram athugun og úrvinnslu á verkefnum og athugun á einstökum málum sem m.a. geti ýtt þessu máli inn í framtíðina með þeim hætti sem flutningsmenn vilja stefna að, þ.e. að ná fram launajafnrétti karla og kvenna.

Nú er það þannig, hæstv. forseti, að launamunur í opinberum störfum er minni en á hinum almenna vinnumarkaði og það er athyglisvert sem kemur fram í greinargerðinni að heildaratvinnutekjur kvenna eru að jafnaði 60% af atvinnutekjum karla á hinum almenna vinnumarkaði en heildaratvinnutekjur kvenna meðal opinberra starfsmanna eru 86% af atvinnutekjum karla. Það hefur einnig verið bent á það í umræðunni að því miður þokar okkur ekki áfram í þessum málum og að á vegum einkafyrirtækjanna væri jafnvel hægt að finna dæmi um að launamunur væri vaxandi.

Gegnum tíðina hafa verið uppi sjónarmið um að reyna að ná fram jöfnum rétti karla og kvenna, annars vegar með lögum og hins vegar hefur verið horft til þess í kjarasamningum, þó að þau markmið hafi ekki náðst. Spurning er hvort hægt sé að setja sterkari ákvæði inn í kjarasamninga sem gætu tryggt slík markmið en okkur sem flytjum þetta mál hér og mælum fyrir því sýnist að það verði að auka réttarstöðuna í þessum málum. Þess vegna leggjum við til að það sé gert m.a. með því að Jafnréttisstofa geti krafist upplýsinga og í annan stað að launaleyndin verði bönnuð þannig að ekki sé hægt að meina einstaklingi að gefa upplýsingar um laun sín, það sé ólöglegt að hafa slík ákvæði inni í samningum launamanna við einstök fyrirtæki að þeir geti ekki gefið upplýsingar um laun sín af hvaða kyni sem þeir eru eða hvaða stöðu sem fólk gegnir. Okkur virðist vera nauðsynlegt að sú leið verði farin. Menn geta auðvitað sagt sem svo: Er rétt að ganga að upplýsingum sem snúa að einni persónu með þessum hætti og þar af leiðandi að fara inn á eitthvert grátt svið varðandi persónuréttindi fólks? Ég held að eins og þetta er lagt upp hér í frumvarpinu sé rétt að sú leið verði farin og að þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru í þessu máli verði ekki náð fram öðruvísi en að launaleyndinni verði aflétt og okkur muni ekki þoka áfram nema það verði gert. Það er a.m.k. mín skoðun.

Við höfum haft það sem sjónarmið í þjóðfélagi okkar að allir eigi að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. Við skulum vona að það sé meginsjónarmið sem allir geti gengist undir en reyndin hefur hins vegar sýnt að karlar hafa að jafnaði hærri laun en konur í fyrirtækjum og á almennum vinnumarkaði og sú staða hefur ekki breyst.

Ég verð þó að geta þess, hæstv. forseti, af því að ég var þátttakandi í gerð kjarasamninga í áratugi hjá einni ákveðinni stétt, sjómannastéttinni á Íslandi, að ég þurfti aldrei að takast neitt sérstaklega á við það í kjarasamningum fyrir sjómenn að semja sérstaklega um réttindi karla eða kvenna. Ég hygg að það sé alveg hægt að halda því fram og rétt að draga það fram í umræðunni að það séu áratugir síðan, hæstv. forseti, því fyrirkomulagi hafi verið komið á varðandi laun þeirra sem stunduðu sjómennsku — en eins og allir vita þá voru konur jafnan í miklum minni hluta þeirra sem stunduðu þau störf af mörgum ástæðum þó að nútímaaðbúnaður um borð í skipum og tækni hafi vissulega gert konum mun auðveldara að stunda þau störf en áður var — en allt að einu var það samt sem áður staðreynd, hæstv. forseti, að það var aldrei samið sérstaklega um að konur hefðu lægri laun en karlar. Það var eingöngu samið um stöðurnar og störfin og skipti ekki máli hvort það var karl eða kona sem gegndi starfinu, það voru greidd sömu laun. Ég held að það sé allt í lagi að draga það hér inn í þessa umræðu og vekja athygli á því að þannig hefur það verið varðandi störf til sjós áratugum saman og á það jafnt við hvort sem menn voru á fiskiskipum með hlutaskiptakerfi eða störfin voru unnin á fraktskipum, varðskipum, hafrannsóknaskipum, ferjum eða öðrum þeim skipum sem notuð voru hér við land, það voru greidd sömu laun fyrir sama starf. Svo kann að vera, hæstv. forseti, að t.d. á ferjum hafi konur frekar en karlar gegnt ákveðnum störfum sem voru á þjónustusviðinu og þar af leiðandi haft lægri laun. Það átti hins vegar ekki við á fiskiskipunum og að ég hygg ekki heldur á farskipunum, vöruflutningaskipunum. Þetta vildi ég láta koma fram í máli mínu, hæstv. forseti, að svona er þetta að því er þessar stéttir varðar.

Það breytir ekki því að það mál sem við færðum nú er afar nauðsynlegt. Við hljótum að spyrja okkur: Hvers vegna fá konur ekki framgang til stöðuhækkunar og ábyrgð innan fyrirtækja til jafns við karla? Það eru sjálfsagt margar ástæður fyrir því, kannski eimir enn þá eftir af því frá eldri tíma að menn hafi litið svo á að konur ættu erfiðara með að sinna störfum en karlar vegna fjölskylduhaga eða vegna barnauppeldis en ég tel að þau viðhorf eigi ekki við í dag og geti ekki verið ástæða fyrir því að konur séu með lægri laun en karlar.

Ég vil eingöngu lýsa yfir miklum stuðningi við þetta mál og tel að það verði að fara í annan farveg en verið hefur á undanförnum árum. Sú launakönnun um stöðu karla og kvenna í þjóðfélaginu sem nýverið var kynnt sýnir að við höfum ekki náð neinum markverðum árangri síðastliðin tíu ár og þess vegna er hér lagt til að farnar verði leiðir sem mönnum kunna að finnast róttækar, þ.e. að Jafnréttisstofa eigi ævinlega rétt á upplýsingum, að þeim verði ekki haldið leyndum, að launaleyndin sé bönnuð í kjarasamningum og að menn séu ekki ráðnir í kjarasamningum með ákvæði um að þeir megi ekki segja frá launum sínum og upplýsa um þau.

Síðan er auðvitað sú hugsun að tryggja rétt kvenna til jafnrar stöðu og jafnra starfa og ábyrgðar sem er auðvitað markmið sem mun til framtíðar leiða til þess að laun karla og kvenna jafnast. En óbreytt staða er óásættanleg og þess vegna hljótum við að reyna að fara þá leið sem lögð er til í þessu frumvarpi.