133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

starfsmannaleigur.

142. mál
[14:28]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég samþykkti þau lög sem á sínum tíma voru samþykkt á hinu háa Alþingi um starfsmannaleigur nánast grátandi. Ástæðan var sú að þó að vissulega fælist í þeim framfaraspor gengu þau ekki nándar nærri nógu langt. Eins og hv. þm. Jón Gunnarsson reifaði og rifjaði upp áðan svaraði hæstv. ráðherra því til að hér væru tæplega þúsund manns sem skráðir væru í gegnum starfsmannaleigur. Staðreyndin er hins vegar sú að hér eru miklu, miklu fleiri erlendir starfsmenn starfandi. Mjög margir þeirra hafa með einhverjum hætti komið í gegnum starfsmannaleigur. Margar þeirra eru hálfgerðar bílskúrsleigur sem starfa fram hjá lögum og það verður með einhverjum hætti að koma lögum yfir þessa starfsemi. Þær leiða fyrst og fremst til þess að verið er að undirbjóða íslenskt vinnuafl og fótumtroða réttindi sem menn hafa unnið sér og margar þeirra sjá til þess að starfsmennirnir greiða ekki skatta af launum. Ég tel að hér sé komið í töluvert óefni og það rek ég fyrst og fremst til þess að lögin eru ekki nægilega sterk.