133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

151. mál
[14:48]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Mig langar að beina tveimur spurningum til hæstv. félagsmálaráðherra sem varða það hvort rétt sé að setja öll sveitarfélög undir sama hatt þegar komið er að þeirri spurningu hvort rétt sé að flytja verkefni til þeirra, þ.e. hvort ekki sé einfaldlega rétt að flytja verkefni til sveitarfélaga sem hafa til þess styrk eins og á höfuðborgarsvæðinu og víðar og vera síðan ekkert að hugsa um að flytja verkefnið til allra sveitarfélaga, svo sem minni sveitarfélaga sem eiga einfaldlega fullt í fangi með að sinna þeim verkefnum sem þau hafa nú þegar.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það geti ekki komið upp sú staða að sveitarfélögin verði einfaldlega of stór, t.d. þegar komin eru upp hverfasamtök í sveitarfélögum, eins og t.d. í Skagafirði. Þar eru komin upp hverfasamtök austan vatna. Það kemur eflaust sá tími að þessi hverfasamtök vilja hafa eitthvað um málin að segja. Og ef sveitarfélög verða of stór, þá verður komið upp þriðja stjórnsýslustigið.