133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:50]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt það ítrekað í ræðustól að því hafi verið hafnað að ræða þessi tvö mál saman hér í þingsalnum, þ.e. annars vegar frumvarpið um Ríkisútvarpið og hins vegar þetta fjölmiðlafrumvarp. Það kann rétt að vera. En það er líka fullkomlega óeðlilegt að þau séu rædd saman í þingsalnum. Það breytir ekki því að þau geti verið samferða í gegnum þingið og í gegnum þingnefnd og unnin samhliða í þingnefndinni.

Hér er um að ræða tvö stór frumvörp. Þegar þess er gætt að fjölmiðlaskýrslan var aldrei rædd í þinginu og fjölmiðlafrumvarpið hafði ekki fengið neina umfjöllun í þinginu, þá var fullkomlega óeðlilegt að þessi tvö mál væru undir í einni og sömu umræðunni í þingsalnum. Mér finnst það ekki nema eðlilegt að þau séu tekin fyrir hvort fyrir sig. En auðvitað var hugsunin sú að það væri hægt að gera það í beit hér í þinginu þó það hafi síðan ekki tekist vegna kjördæmavikunnar.

En eins og ég segi, það er engin ástæða til annars en að þessi mál verði samferða í gegnum menntamálanefnd og verði unnin þar samhliða og komi hingað til afgreiðslu saman að þeirri umfjöllun lokinni.

Ég sagði ævinlega þegar fjölmiðlafrumvarpið var til umræðu 2004 að ég væri sannfærð um að hægt væri að ná sátt í því máli ef menn legðu sig fram um það. Ég er líka býsna sannfærð um að hægt hefði verið að ná meiri sátt, ég veit ekki hvort hún hefði verið fullkomin, um Ríkisútvarpið ef menn hefðu lagt sig fram um það og unnið að málefnum Ríkisútvarpsins með þeim hætti að setja niður nefnd til að fjalla um Ríkisútvarpið, gera um það skýrslu og vinna á grundvelli þess síðan frumvarp um Ríkisútvarpið. Ég tel mjög mikilvægt, virðulegur forseti, að við (Forseti hringir.) reynum að ná sátt um grundvallarstofnanir í samfélagi okkar.