133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

afnám refsiákvæða vegna ærumeiðinga.

294. mál
[13:59]
Hlusta

Flm. (Eiríkur Jónsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu á þingskjali 307 um afnám refsiákvæða vegna ærumeiðinga. Tillagan gerir ráð fyrir að dómsmálaráðherra verði falið að vinna að endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga og 26. gr. skaðabótalaga, er miði að því að refsingar vegna ærumeiðinga verði aflagðar. Markmið breytinganna á að vera að réttarúrræði vegna ærumeiðinga færist alfarið af sviði refsiréttar yfir á svið einkaréttar.

Hvatinn að tillögunni er einkum sá að ég tel umrædd ákvæði löngu úrelt og í ósamræmi við nútímaviðhorf til mannréttinda og setji mjög slæmt fordæmi í samfélagi þjóðanna. Þá er hvatinn ekki síður að vekja þingheim til umhugsunar um aðra leið en þá sem farin er í því frumvarpi sem liggur fyrir á þingskjali 21, um ærumeiðingar og hækkun miskabóta, sem ég tel ganga allt of langt með hliðsjón af grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi.

Það frumvarp var til umræðu hér í gær þar sem ég og 1. flutningsmaður þess, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, áttum góð skoðanaskipti. Tók hv. þingmaður fram að vel væri hugsanlegt að fara mætti aðra lagatæknilegar leiðir en þar var mælt fyrir um til að ná því markmiði sem stefnt er að með frumvarpinu. Ég fagnaði því sérstaklega enda tel ég afar óheppilegt að Alþingi fari að endurstaðfesta umrædd ákvæði hegningarlaga og skrúfa þau upp núna á árinu 2006, heldur sé nærri lagi að fella þessi ákvæði hegningarlaga úr gildi og færa verndina alfarið yfir á svið einkaréttarins.

Mér gefst nú tækifæri á að gera nánari grein fyrir af hverju ég tel þetta nauðsynlegt. Ég legg áherslu á að fjallað verði sameiginlega um þessi tvö mál í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar, þ.e. frumvarpið á þingskjali 21 og þá þingsályktunartillögu sem ég mæli nú fyrir. Því þó að flutningsmenn beggja mála greini vissulega á um hvað beri að gera með 26. gr. skaðabótalaga, þá tel ég, eða vona að minnsta kosti, að sátt geti náðst um að flytja æruverndina úr hegningarlögunum og alfarið yfir á svið einkaréttarins.

Af hverju er svona mikilvægt að afnema refsiákvæði hegningarlaga um ærumeiðingar? Það verður núna nánar rakið.

Það skal fyrst nefnt að hegningarlögin voru sett árið 1940. Þau hafa staðið nánast óbreytt frá því þau voru sett. Vart þarf að fullyrða um þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem hafa orðið á þeim tíma. Í fyrsta lagi stofnuðum við lýðveldi og settum okkur lýðveldisstjórnarskrá. Sú stjórnarskrá hefur verið uppfærð með tilliti til mannréttinda. Við höfum gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda, svo sem með mannréttindasáttmála Evrópu og allt hér hefur breyst verulega. Það er eitt helsta megineinkennið á þessari þróun að tjáningarfrelsið hefur hlotið sífellt aukna vernd. Það er klárlega eitt af grundvallarstefunum í þeirri mannréttindaþróun. Þessi ærumeiðingarákvæði hegningarlaga eru einfaldlega í miklu ósamræmi við þá þróun og þau nútímaviðhorf sem nú ríkja til mannréttinda.

Ég ætla að nefna nokkur dæmi um gallana á hegningarlögunum eins og þau eru núna. Í fyrsta lagi mæla ákvæðin berum orðum fyrir um að fangelsa megi fólk fyrir tjáningu. Þau mæla berum orðum fyrir um það samkvæmt 234. gr. að fangelsa megi fólk fyrir það eitt að móðga hvert annað. 235. og 236. gr. gera ráð fyrir því að aðdróttun geti varðað allt að tveggja ára fangelsi. Ef aðdróttunin beinist að forseta Íslands getur fangelsið orðið allt að fjórum árum. Það er heilt kjörtímabil. Við getum lent í að dúsa í fangelsi samkvæmt berum orðum ákvæðanna. Þetta er auðvitað löngu úrelt og ég held að sjái það allur þingheimur að þetta stenst ekki með nokkrum hætti nútímaviðhorf, hvorki mannréttindaviðhorf né almenn viðhorf í þjóðfélaginu. Enda hafa alþjóðastofnanir ítrekað lýst yfir andstöðu sinni við fangelsi sem úrræði við ærumeiðingum og Mannréttindadómstóll Evrópu ítrekað snúið við dómum þar sem fólk hefur verið fangelsað vegna ærumeiðinga.

Það er fleira í ákvæðunum eins og þau eru sem veldur miklum vafa. Til dæmis er refsað fyrir útbreiðslu ummæla sem sjálfstætt brot, þ.e. það er ekki aðeins frummeiðingin sem er refsiverð heldur er útbreiðsla meiðingarinnar jafnrefsiverð. Þetta stangast mjög á við dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, eins og fram kom m.a. í máli Þorgeirs Þorgeirsonar gegn Íslandi þar sem ein helsta niðurstaða dómsins um að áfella yfir íslenska ríkinu byggði á því að Þorgeir hafði bara verið að greina frá því sem aðrir höfðu fullyrt um ofbeldi af hálfu lögreglu en hann hafi ekki verið að semja það sjálfur.

Það eru fleiri svona mál, t.d. málið Salov gegn Úkraínu árið 2005. Þá kvað Mannréttindadómstóllinn mjög skýrt á um það að 10. gr. sáttmálans bannar ekki dreifingu upplýsinga jafnvel þótt að fyrir liggi sterkur grunur um að upplýsingar séu rangar. Þetta er sú dómaframkvæmd sem kemur frá Strassborg og við verðum að líta til. Ákvæði sem leggur frummeiðinguna og útbreiðsluna að jöfnu fær að mínu mati ekki staðist.

237. gr. gerir ráð fyrir að meiðandi ummæli séu refsiverð jafnvel þótt sönnuð séu. Þetta brýtur mjög í bága við nútímaviðhorf enda er það almennt grundvallarviðhorf að sönn ummæli varða ekki ábyrgð. Svo hafa fræðimenn bent á að þetta bann við einföldum móðgunum sem fram kemur í 234. gr. fái ekki heldur staðist mannréttindasáttmála og stjórnarskrá. Ég held að megi að ýmsu leyti taka undir það.

Ég get nefnt fleiri dæmi en læt staðar numið hér. Enda held ég að ég hafi gert grein fyrir meginmálinu að þessi ákvæði eru úrelt og þeim þarf að breyta og þau þarf að uppfæra. Þá vakna auðvitað spurningar með hvaða hætti á að gera það. Hér er lagt til að endurskoðun ákvæða verði skipað utan almennra hegningarlaga og á svið einkaréttarins, skaðabótalaga eða annarra laga á sviði einkaréttar.

Af hverju legg ég svona mikla áherslu á það? Það er í fyrsta lagi vegna þess að sífellt aukinn þrýstingur hefur verið að myndast á alþjóðasviðinu á að ríki leggi af refsingar vegna ærumeiðinga og snúi sér í staðinn að einkaréttarlegum úrræðum. Ýmsar stofnanir og samtök á sviði mannréttinda hafa barist mjög fyrir þessu og skemmst er að minnast sameiginlegrar yfirlýsingar fulltrúa Sameinuðu þjóðanna og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og samtaka Ameríkuríkja sem getið er um í tillögunni. En þessir fulltrúar ályktuðu árið 2002 í lauslegri þýðingu minni, með leyfi forseta:

„Refsingar vegna ærumeiðinga eru ekki réttlætanleg skerðing á tjáningarfrelsinu. Öll refsilög vegna ærumeiðinga ætti að afnema og taka þess í stað upp löggjöf á sviði einkaréttarins.“

Það er í raun þannig að jafnt tjáningarfrelsisfulltrúar Sameinuðu þjóðanna og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu hafa barist mjög einarðlega gegn refsiákvæðum vegna ærumeiðinga og ítrekað lýst yfir andstöðu sinni við slík ákvæði. Það eru ýmsar aðrar svæðisbundnar stofnanir á sviði mannréttinda sem hafa gert hið sama. Ég get nefnt mannréttindanefnd Afríku og ýmsar sameiginlegar ráðstefnur alþjóðasamtaka. Þá hefur þing Evrópuráðsins lýst yfir áhyggjum af misnotkun slíkra úrræða og hvatt tiltekin ríki til að fella slík ákvæði úr gildi eða endurskoða þau að verulegu leyti.

Eins og réttilega var getið um í því fjölmiðlafrumvarpi sem við ræddum í gær skiptir álit Evrópuráðsins verulegu máli. Það er töluvert gert úr álitum Evrópuráðsins og það sama verður auðvitað að gilda í þessu. Evrópuráðið hefur mjög verið að vara við þessu. Ég held að þingheimur verði jafnt hér og í fjölmiðlamálinu að líta til þess.

Ég vil líka nefna að til samræmis við þennan þrýsting hafa sífellt fleiri ríki verið að hverfa frá refsingum vegna ærumeiðinga. Mig langar að telja hérna aðeins upp nokkur lönd sem hafa gert þetta á síðustu árum, því þetta eru ekki lönd sem við tengjum endilega við hugmyndir um vestræn lýðræðisríki. Eftirtalin lönd hafa alfarið, eða að hluta, horfið frá refsingum vegna ærumeiðinga á síðustu árum: Albanía, Argentína, Bosnía-Hersegóvína, El Salvador, Gana, Georgía, Hondúras, Ítalía, Kambódía, Króatía, Kýpur, Mið-Afríkulýðveldið, Moldavía, Perú, Rúmenía, Srí Lanka, Tógó, Úganda og Úkraína.

Það er að mínu mati rétt að Íslendingar taki þessa þróun til athugunar og sláist í hóp þeirra ríkja sem afnumið hafa refsingar vegna ærumeiðinga. Ég legg áherslu á að slík breyting yrði ekki eingöngu mikilvæg sem liður í því að Íslendingar leggi sig fram um að löggjöfin hér samrýmist nútímamannréttindaviðhorfum, heldur yrði hún einnig mjög mikilvægt fordæmi í samfélagi þjóðanna. Það er nú einu sinni þannig að refsingar vegna ærumeiðinga eru misnotaðar víða um heim af valdhöfum m.a. til að þagga niður í pólitískum andstæðingum og loka þá inni. Því miður eru núgildandi ákvæði íslenskra laga notuð sem röksemd fyrir því að slíkar aðgerðir teljist í lagi. Þessu kynntist sá sem hér stendur nýverið af eigin raun og skal fúslega viðurkennt að sú reynsla er ein af helstu ástæðum þess að ég ber þessa tillögu hér fram og legg svona mikla áherslu á þetta.

Þannig er mál með vexti að í framhaldsnámi mínu í lögfræði vann ég að verkefni á þessu sviði í landi þar sem pólitískum andstæðingum stjórnarinnar hafði nýlega verið varpað í fangelsi fyrir skoðanir sem ekki hentuðu þjóðarleiðtogunum. Ég aðstoðaði þarna staðbundin mannréttindasamtök í baráttunni fyrir breyttri löggjöf og það upphófust miklar rökræður um það hvort slík úrræði, refsingar og fangelsi, væru eðlileg eða ekki. Rökstuðningur þeirra sem mæltu slíkum aðgerðum bót var mjög áhugaverður, en þeir bentu á þau vestrænu lýðræðisríki þar sem slík refsiákvæði væru í gildi, þar á meðal á Íslandi. Á Íslandi mætti refsa og fangelsa fólk fyrir tjáningu sína.

Mér brá óneitanlega í brún og tel rétt að nefna þetta til að vekja þingmenn til umhugsunar, að það eru ekki bara við Íslendingar sem horfum á löggjöfina, heldur er horft til hennar úti í heimi. Eins og löggjöfin stendur núna fullnægir hún því miður að sumu leyti þeirri röksemdafærslu valdstjórna að þetta sé í lagi.

Hér skal lögð sérstök áhersla á það í lokin að það er á engan hátt lagt til að vernd ærunnar verði aflögð. Æran er varin af 71. gr. stjórnarskrárinnar sem og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sú vernd er mikilvæg og við þá endurskoðun sem gerð er tillaga um þyrfti að sjálfsögðu að tryggja æru fólks þá vernd sem henni ber samkvæmt tilnefndum ákvæðum og eðlilegar teljast. Tillagan felur einfaldlega í sér að núgildandi ærumeiðingarákvæði verði endurskoðuð þannig að tryggt verði að þau uppfylli nútímamannréttindakröfur um tjáningarfrelsið og setji ekki slæmt fordæmi í samfélagi þjóðanna.

Það samrýmist einfaldlega hvorki nútímalegum mannréttindaviðhorfum né almennum viðhorfum í samfélaginu að lögin mæli berum orðum fyrir um að varpa megi borgurunum í fangelsi fyrir tjáningu sína og það meira að segja allt að fjórum árum.