133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:36]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er sagt að einhver aðför sé í gangi að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. (Gripið fram í.) Nei, hér er engin aðför í gangi. Heilsugæslustöðvarnar starfa allar eins og venjulega, þar er allt í stakasta lagi og gengur vel. Það er engin aðför í gangi gegn heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, ég átta mig ekki á því af hverju hv. þingmaður fjallar um þessi mál á þennan hátt.

Varðandi söluna, sem menn hafa rætt mjög lengi um og er greinilega enn þá til umræðu miðað við það sem hefur komið fram í andsvörum núna, þá vildi borgin selja og fyrrverandi borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir núverandi hv. þingmaður, sendi ýmis bréf af því tilefni og ég hef skoðað hluta þeirra. Það var ákveðið að fara í sölu og ég rakti það ferli áðan. Í framhaldi af því var auglýst eftir húsnæði og það var tekið húsnæði á leigu í Mjóddinni. Þetta er sem sagt orðinn hlutur, það er búið að leigja nýtt húsnæði þannig að það er staðan sem við erum að vinna út frá. Þetta er ágætt húsnæði, það er miðsvæðis, mjög miðsvæðis og gott aðgengi, reyndar miklu betra aðgengi en að Barónsstígnum, varðandi bílastæði og annað slíkt. En það er ekki í næsta nágrenni við LSH, það er alveg ljóst, það er lengra þar á milli. En það er búið að leigja þetta húsnæði og við erum að koma stjórnsýslunni og fleiri verkþáttum þar inn núna eftir okkar bestu getu og það er verið að innrétta húsnæðið og flytja í það.