133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

erlent vinnuafl og innflytjendur.

[15:27]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Upp úr stendur í þessu máli að ekki hefur verið staðið við þau fyrirheit sem þingmönnum voru gefin hér þegar þetta nefndarálit meiri hluta félagsmálanefndar var lagt fram í þinginu. Það hefur ekki verið staðið við þessi fyrirheit. Það hefur ekki verið staðið við þessar dagsetningar. Það var talað um 1. október, að þann dag ætti að liggja fyrir þessi áætlun þar sem mótuð yrði stefna í málefnum innflytjenda. Það er ekki enn þá búið að gera þetta.

Það liggur sem sagt ekki fyrir nein stefna af hálfu stjórnvalda um málefni innflytjenda í þessu landi sem hafa flætt inn í landið á örfáum vikum og mánuðum fyrir tilstilli þessarar hroðalegu lagasetningar sem Alþingi samþykkti hér þann 28. apríl sl.

Hvernig væri þá að félagsmálaráðherra sýndi að minnsta kosti þá döngun að svara spurningu minni: Er þess að vænta að hér komi fram eitthvert frumvarp frá ríkisstjórninni áður en Alþingi fer í jólafrí þann 15. desember, eða ekki? Getum við þá að minnsta kosti fengið einhver svör um það?