133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni þannig að ég þarf ekki að hafa mörg orð um það. Það eru margar hliðar á þessum málum sem þarf að skoða. Við höfum lagt til, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði grein fyrir, að farið verði í aðgerðir til að fyrirbyggja að svona hlutir komi upp. Þetta er ómögulegt. Ef skyndilegar verða breytingar sem hafa margþætt áhrif út fyrir vaxtabótakerfið þarf að vera einhvers konar innbyggt kerfi sem grípur í taumana og kemur í veg fyrir að svona röskun verði á högum manna.

Tillaga okkar gengur einmitt út á að skipuð verði nefnd til að fara ofan í saumana á því hvernig matsverðið myndast með hliðsjón af því að álagning fasteignaskatts, sem tekjustofns sveitarfélaga, og svo aftur vaxtabótakerfið, sem tekur mið af þessu vegna skerðingarmarkanna, fari ekki allt saman á flot.

Ég held því að setja ætti þetta fyrirkomulag sem slíkt í endurskoðun og reyna að finna kerfi sem tekur á því og bregst við því sjálfkrafa þegar svona snöggar breytingar verða. Það er auðvitað meiningarlaust að vera með kerfi af þessu tagi ef svo augljósir ágallar eru á fyrirkomulaginu, augljós göt, að slíkir hlutir geti gerst eins og við stöndum frammi fyrir núna, og þurfa svo að fara að baksa við að reyna að lagfæra það afturvirkt. Það er náttúrlega alltaf ambögulegt og veldur þeim óþægindum sem við eiga að búa, þannig að það er öllum fyrir bestu að reyna að sjá fyrir því.