133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[17:55]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi gera athugasemd við tvennt sem kemur þó eiginlega hvorugt frumvarpinu við. En hv. þingmaður nefndi það. Það er í fyrsta lagi tekjutenging barnabóta. Þær voru stórauknar einmitt á þeim árum þegar hv. þingmaður var hæstv. félagsmálaráðherra. (JóhS: Stórauknar?) Þá voru bæturnar auknar og tekjutengingin tekin upp. Þá var hún tekin upp í þessum mæli sem menn eru að tala um. Það er dálítið undarlegt að menn skuli gleyma sögunni.

Svo er það fjármagnstekjuskattur á lífeyri. Lífeyrir í lífeyrissjóðum hefur ekki verið skattlagður. Hvorki 6% — þau hafa aldrei verið skattlögð — né 4% nema á ákveðnu árabili eftir að staðgreiðslan var tekin upp, í sjö ár.

Peningar lífeyrissjóðanna hafa því ekki verið tekjuskattaðir. Sá sem hefur sparað í lífeyrissjóði er með fulla upphæð í sparnaði. Sá sem sparaði fyrir utan lífeyrissjóði þurfti fyrst að borga tekjuskatt af því og síðan fékk hann ávöxtun á restina. Það er auðvelt að sjá að þegar hann tekur það út að lokum úr lífeyrissjóðnum þá er hann með sem svarar tekjuskattinum meira í innstæðu. Þess vegna er eðlilegt að hann borgi tekjuskatt af lífeyrinum því þessi peningur hefur aldrei verið tekjuskattaður, nema eins og ég nefndi, í þessi örfáu ár. Auk þess hefur lífeyrissjóðurinn ekki borgað fjármagnstekjuskatt af því. Þeir eru algerlega skattfrjálsir á meðan sá maður sem sparaði utan lífeyrissjóðanna þurfti að borga fjármagnstekjuskatt. Þessi umræða er því mjög á villigötum og kæmi náttúrlega að sjálfsögðu þeim sem eru með hæsta lífeyrinn langbest. Þessir með 300–400 þús. kr. á mánuði mundu græða mest á slíkri breytingu.