133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:55]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það ber vel í veiði fyrir formann fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar að þessi mál skuli vera til umræðu vegna þess að sá sem hér stendur er einn af þeim sem hafa gert þessi mál talsvert mikið að umtalsefni, m.a. með hugmyndum um svokallaðar fjölskyldugreiðslur sem er væntanlega nákvæmlega það sem hv. þingmaður á við í ræðu sinni. Ég tel að ákveðins misskilnings gæti í máli hv. þingmanns.

Hér er ekki um að ræða neina tilraun eða ætlun til að skerða jafnrétti kynjanna til þátttöku á vinnumarkaði. Þessum greiðslum hefur verið lýst sem valkvæðum. Hugmyndin eins og hún hefur helst komið fram gengur út á að jafna eða brúa bilið frá því fæðingarorlofi lýkur og þangað til að börnin komast á leikskóla, sem er venjulega um 18 mánaða aldur.

Ég hef fyrir mína parta lýst þeirri skoðun minni að ég tel að fæðingarorlofið ætti að lengjast upp í 12 mánuði. Reykjavíkurborg, svo dæmi mætti nefna, hefur ákveðið að færa leikskólaaldurinn niður í 12 mánaða aldur, en það gerist auðvitað á löngum tíma vegna þess að það kallar á gríðarlega fjárfestingu og ákveðna grundvallarbreytingu í rekstri leikskólanna í borginni.

En það sem ég hef lagt áherslu á er að fyrir foreldra barna á þessum aldri í dag eru þetta bara takmörkuð svör. Annars vegar að það standi til í framtíðinni að lengja fæðingarorlof og hins vegar að byggja smábarnaleikskóla. Það eru ekki svör í dag og þess vegna komu fram þessar hugmyndir um fjölskyldugreiðslur, að þær gætu orðið til að brúa þetta bil núna, verði valkvæðar þannig að foreldrar geti notað þær til að vera lengur heima með börnunum sínum, geti notað þær til að ráða aðra til þess, t.d. ömmu eða afa, au pair eða eitthvað slíkt eins og au pair greiðslur borgarinnar leyfa nú þegar. Nú eða til niðurgreiðslu dagforeldra vegna þess að þessar greiðslur eru ígildi þess sem sveitarfélögin nota í dag til að greiða niður þá mikilvægu þjónustu.