133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:03]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu skatta á fjármagnstekjur. Í því felast ýmsar breytingar, bæði jákvæðar og neikvæðar að mínu mati og ætla ég nú að fara í gegnum þær.

Í fyrsta lagi vil ég gjarnan tala um þetta sem bar síðast á góma í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um styrki til foreldra sem þeir fá frá sveitarfélögum. Nú er það þannig að sá sem sendir barn í leikskóla eða til dagmömmu fær styrk frá sveitarfélaginu sem samkvæmt strangasta skilningi skattalaga ætti að teljast til hlunninda og ætti að skattleggjast en hefur ekki verið gert. Það sem gerist núna er að ýmis sveitarfélög ætla að fara að greiða þetta til foreldranna beint og síðan geti þeir valið hvort þeir sendi barnið í leikskóla eða ekki.

Nú hef ég ekki skoðað það nýlega og veit því ekki hvað leikskólapláss kostar en mér segir svo hugur um að hvert pláss á leikskóla muni kosta um 100 þús. kr. og af því borgi foreldrarnir 30 þús. og sveitarfélagið um 70, mismunandi eftir sveitarfélögum, mismunandi eftir stöðu foreldra, hvort þeir eru námsmenn eða ekki o.s.frv. en svona er þetta í grófum dráttum. Í rauninni gæti sveitarfélagið borgað foreldrunum 70 þús. kr. og svo ráða þeir hvort þeir borga 30 þús. kr. til viðbótar og setja barnið í leikskóla eða skiptast á um að vera heima. Ég sé ekki þennan vanda hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að eingöngu konur verði heima. Ef svo er er þetta mjög illa farið. Ég held nefnilega að fæðingarorlofið hafi gert það að verkum að feður kunni sífellt betur að meta umgengni við börnin sín og ég get alveg séð fyrir mér að foreldrar með tvö börn á leikskólaaldri sem fengju þá 140 þús. kr. gætu verið hálfan daginn hvort heima með börnunum og haft mikla ánægju af. Og ég held að foreldrarnir séu ekkert verri uppalendur barnanna sinna en fólk á leikskóla sem starfar þar sem launþegar.

Ég er mjög hlynntur þessari breytingu. Ég mundi jafnvel vilja orða greinina enn almennar þannig að ef menn tækju t.d. upp á því að láta fólk fá ávísanir fyrir grunnskóla eða framhaldsskóla þar sem fólk gæti valið sér skóla sem mundi auka samkeppnina frekar yrði það ekki skattskylt heldur. Þetta er það sem menn fá í dag. Það kostar 400 þús. kr. eða eitthvað slíkt að hafa barn í grunnskóla og ef ríkisvaldið eða sveitarfélagið tæki það upp að láta foreldra fá ávísun fyrir þessu og foreldrarnir gætu svo valið sér skóla finnst mér að það ætti ekki að vera skattskylt. Það er ekki skattskylt í dag.

Síðan er hækkun á aldri barna til barnabóta. Það finnst mér jákvætt. Það er ákveðin þróun í gangi. Við teljum núna unglinga upp að 18 ára aldri sem börn og þá finnst mér eðlilegt að það sé gert hérna líka. Það myndast reyndar ákveðið bil frá því að barnabótum sleppir og þar til námslánakerfi tekur við. Þarna er verið að minnka það bil. Það voru fjögur ár en eru núna tvö ár en veldur oft miklum vandræðum því að námslánakerfið tekur yfirleitt við þegar fólk fer í háskóla þó að það séu undantekningar á því.

En svo komum við að því sem ég kannski helst vildi tala um, herra forseti, og það er að hækka tekjuskattinn um 1%. Það var sett í lög fyrir nokkrum árum að lækka tekjuskatt um 4% sem þýðir fyrir venjulegan launþega í ASÍ sem er með að meðaltali um 300 þús. kr. að hann er nú þegar búinn að njóta 6 þús. kr. á mánuði í lækkun á tekjuskatti. Hann nýtur þess raunverulega í dag að hann hefur 6 þús. kr. meira til ráðstöfunar og með þessari breytingu átti hann að hafa 12 þús. kr. meira til ráðstöfunar um næstu áramót. En vegna áhrifa ASÍ, vil ég segja, þar sem nokkrir einstaklingar hafa mikinn áhuga á því að taka upp meiri skatta á hærri tekjur, þ.e. sem sagt flóknara skattkerfi, var fallist á það að lækka þessa prósentu, falla frá þessari skattalækkun þannig að hún verður ekki nema 1% í staðinn fyrir 2%. Það þýðir að meðalmaður í ASÍ mun hafa 9 þús. kr. meira til ráðstöfunar eftir þessa skattalækkunarhrinu í stað 12 þús. (GAK: Gleymirðu ekki persónuafslættinum?) Ég kem inn á persónuafsláttinn rétt strax, hækkun hans er 2.500 kr. á mann. Meðalmaðurinn hefði engu að síður verið með meira til ráðstöfunar.

Áhrif ASÍ á lagasetningu á Alþingi er svo kapítuli út af fyrir sig, herra forseti, mjög athyglisverður kapítuli vegna þess að starfsmenn og fulltrúar ASÍ hafa ekki verið kosnir almennri kosningu á Íslandi eins og þingmenn þurfa að sæta. Þingmenn þurfa að fara í prófkjör o.s.frv. Meira að segja einn af starfsmönnum ASÍ ætlaði að fara í prófkjör en hætti við, taldi sig væntanlega hafa meiri áhrif hjá ASÍ en á Alþingi. Mér finnst mjög varasamt að Alþingi láti hagsmunasamtök úti í bæ hafa áhrif á lagasetningu sína en svona er nú reyndin einu sinni.

Í staðinn var farin sú leið að hækka persónuafsláttinn sem hér er talað um. Hann hækkar um 29.620 kr. á ári, tæpar 2.500 kr. á mánuði. Fyrir mann sem er með 100 þús. kr. í tekjur munar þetta 1.500 kr. sem hann hefur meira með því að hækka persónuafsláttinn en fá 1% lægri skatt. Verkalýðshreyfingunni hefur verið í lófa lagið að hækka lægstu laun, ekki um 15 þús. kr. heldur um 16.500, og hækka þá hæstu laun ekki eins mikið af því að þau njóti 1% skattalækkunarinnar. Mér hefur alltaf þótt skorta á það við þessa skattalækkunarhrinu að samráð sé haft við aðila vinnumarkaðarins um það að þegar skattar eru lækkaðir þurfa hæstu tekjurnar ekki að fá eins mikla launahækkun af því að þær njóta skattalækkunarinnar meira. Það sem vinnst með því að hafa prósentulækkun í staðinn fyrir hækkun á persónuafslætti er að það myndast hvati hjá fólki til að auka tekjur sínar, annaðhvort með því að mennta sig eða með því að skipta um vinnu, fá sér betri vinnu, betur borgaða vinnu o.s.frv. Núna er hvatinn mjög lítill. Það eru svokallaðar fátæktargildrur sem menn hafa talað um. Vegna svo margra atriða, alls konar bóta, barnabóta, vaxtabóta o.s.frv. sem eru tekjutengdar er ekkert mjög mikill hvati hjá fólki til að auka tekjur sínar. Það er einmitt það sem hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar, að auka hvatann þannig að tekjur manna hækki, menn vilji auka tekjurnar enda hefur það sýnt sig að tekjur í þjóðfélaginu hafa hækkað eins og hvergi annars staðar. Ég held að óhætt sé að fullyrða að hvergi hafa laun hækkað annað eins og á Íslandi umfram verðlag. Kaupmátturinn hefur hvergi aukist annað eins sem sést náttúrlega á mjög góðri afkomu ríkissjóðs. En mér finnst mjög varasamt að aðilar sem ekki hafa verið kosnir lýðræðislegum kosningum hafi áhrif á lagasetningu á Alþingi eins og við erum að fjalla um hér.

Í frumvarpinu er auk þess lagt til að sjómannaafslátturinn verði hækkaður um eitthvert lítilræði. Ég hef margoft bent á það að hann er tímaskekkja og ætti að falla niður. Hann er ekkert annað en styrkur til útgerðar og hún þarf ekki styrk í dag þannig að ég hefði helst viljað sjá hann hverfa. Það eru fleiri sem vilja það.

Svo eru ýmsar breytingar við barnabætur sem eru eðlilegar og í samræmi við ýmsa hækkun sem hefur orðið á verðlagi og launum. Í heild sinni er þetta frumvarp jákvætt þó að ég sé mjög óhress með það að hvatinn til að stækka kökuna hafi svo að segja fallið í gryfju þeirra sem eru uppteknir af því að skipta kökunni. Ég tel að skattkerfið sé fyrst og fremst ætlað til að afla velferðarkerfinu tekna en ekki til þess að hafa áhrif á hegðun manna eða breyta tekjuskiptingu. Það er annað mál sem við leysum á öðrum vettvangi en í gegnum skattkerfið en hér veit ég að menn hafa mjög mismunandi skoðanir og sumir eru svo uppteknir af því að láta skattkerfið jafna tekjur að þeir eru jafnvel til í að sjá á bak stórfyrirtækjum úr landi bara til að láta launajafnréttið halda sér.