133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[16:17]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við séum komnir að punktinum, hvernig hv. þingmaður sér hlutina. Hann skilur þá ekki en hann sér þá einhvern veginn öðruvísi. Hann les út úr orðum mínum eitthvað allt annað en ég segi. Hann heyrir að ég hafi sagt að opinberir starfsmenn vinni ekki vinnuna sína. Ég hef hins vegar aldrei sagt það. Svo nefnir hann til sögunnar gjaldþrot Enrons. Ég veit ekki betur en að það hafi verið glæpastarfsemi og að menn hafi verið dæmdir fyrir það í fangelsi, reyndar ekki þeir sem fjárfestu opinberu fé, ekki svo ég viti. Ekki þeir sem töpuðu á endanum, þeir sem hættu fé lífeyrissjóðanna, starfsmannanna. Ég veit ekki til þess að þeir hafi verið dæmdir, það kannski kemur.

Ég sé ekki hvernig í ósköpunum hv. þingmaður ætlar að fara að blanda saman einhverri glæpastarfsemi í Bandaríkjunum og því hvort opinberir starfsmenn eigi að deila út opinberu fé til nýsköpunar. Ég bara hef þá skoðun að það fari ekki saman, að eðli opinberrar starfsemi sé ekki það að standa í nýsköpun. Það er skoðun mín og segir ekki til um það hvort opinberir starfsmenn vinni vinnuna sína eða ekki. Að sjálfsögðu vinna þeir vinnuna sína, að sjálfsögðu fara þeir vel með það fé sem þeim er falið, að sjálfsögðu, ég sagði ekkert annað. Það er hv. þingmaður sem heyrir það út úr orðum mínum, og það er eitthvað skrýtið. Ég ætla ekki að segja að það sé rugl, ég nota ekki svoleiðis orð í málefnalegri umræðu.

Vandamálið sem við eigum að ræða hérna er það hvernig hv. þingmaður skilur það þegar ég segi að opinbert fé henti ekki til áhættu og nýsköpunar.