133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[16:47]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir nokkuð athyglisvert að þetta mál skuli vera komið aftur inn á borð þingsins en mikið var um það deilt á vordögum þegar það lá fyrir. Þá var ljóst að málið var algjörlega vanreifað. Það streymdi inn til hv. iðnaðarnefndar gríðarlegt magn af umsögnum sem allar voru á eina leið, að málið ætti ekki að fara áfram eins og það var síðastliðið vor.

Nú erum við komin með nýtt frumvarp í hendurnar og ég sé ekki miklar breytingar í því. Enn erum við með umdeilda þætti inni, eins og t.d. pólitískt skipaðan forstjóra og enga stjórn yfir honum og að tengslin við atvinnuþróunarfélögin eru enn óljós. Sömuleiðis stendur mjög upp úr sú gagnrýni að ekki sé rétt að blanda saman málefnum sem snúa beint að byggðaþróun og stuðningi við dreifðari byggðir landsins og uppbyggingu rannsókna- og nýsköpunarstarfs sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið.

Virðulegi forseti. Það kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi að tekið hafi verið tillit til nokkurra breytingartillagna sem meiri hluti iðnaðarnefndar lagði til að síðasta þingi. En það sem mér þykir mestu máli skipta er að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvort samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila á sviði byggðamála, þá sem fara með málefni sprotafyrirtækja og þá sem fara með málefni nýsköpunar í landinu. Það er mikilvægt að fá að vita hvort neytendur þessarar stofnunar í framtíðinni hafi fengið að vera með í smíðum þessa nýja frumvarps.