133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

bráðaþjónusta á Suðurnesjum.

133. mál
[14:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég verð að lýsa ákveðnum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra við spurningum mínum. Það kemur fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að ekki standi til að veita aukna fjármuni til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þannig að hjá þeirri stofnun geti ríkt fullkomið öryggi, eins og hægt er, allan sólarhringinn, með því að íbúar sem leita til heilbrigðisstofnunar viti að þurfi þeir á því að halda sé skurðstofan opin og hægt að nýta hana á staðnum.

Það er nú einu sinni þannig að bráðatilfellin gera ekki boð á undan sér og það er alls ekki hægt að reikna með því að þau gerist einungis fyrir kl. 8 á kvöldin og að eftir það sé tekin ákveðin áhætta með því að keyra sjúklinga til Reykjavíkur eftir Reykjanesbraut sem, jú, hefur verið tvöfölduð og skilyrði til aksturs mun betri en áður, en eftir sem áður er þetta ferð sem tekur ákveðinn tíma, bæði með undirbúningi og ferðatíma, þannig að menn líta ekki á það sem raunverulegan kost miðað við það að skurðstofan sé opin allan sólarhringinn.

Viðbótarkostnaður upp á 45 millj. kr., rétt tæpar 4 millj. á mánuði, ég veit ekki hvort hægt sé að tala um að þetta sé há upphæð. Okkur þykir það ekki á Suðurnesjum og í svörum hæstv. ráðherra kom fram að gert væri ráð fyrir að útköll yrðu tvisvar í viku. Nú veit ég ekki hvort það er byggt á einhverjum reynslutölum en átta útköll á mánuði og kostnaður upp á tæpar 4 millj. fyrir það að geta veitt fullkomið öryggi á skurðstofu heima þykja mér ekki miklir fjármunir. Ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða þessa afstöðu sína þannig að nýjar og glæsilegar skurðstofur á 3. hæð verði opnar allan sólarhringinn og íbúar Suðurnesja og þeir sem nýta þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja viti að þarna sé búið við fullkomið öryggi allan sólarhringinn.