133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

stækkun hjúkrunarheimilisins Sóltúns.

117. mál
[14:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir sárum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Það kom fram í fyrri ræðu minni að milli 300 og 400 manns, aldraðir Reykvíkingar, bíða eftir plássi á hjúkrunarheimili. Það kemur fram í svari hæstv. ráðherra að 200 rými verða byggð og koma fyrst til nýtingar árið 2008–2009. Opna átti Markarholt á þessu ári sem nú er bráðum liðið.

Ég verð því að segja að mér finnst heilbrigðisráðuneytið hafa brugðist býsna hægt við mikilli þörf aldraðra Reykvíkinga fyrir að komast á hjúkrunarheimili. Á meðan hleðst upp mikill kostnaður á Landspítalanum vegna umönnunar þessara öldruðu einstaklinga.

Ingibjörg Pálmadóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra var mjög meðvituð þegar hún gerði samning við rekstraraðila Sóltúns um byggingu og rekstur heimilisins. Hún var mjög meðvituð um að hún væri með því að brjóta í blað, að með því væri hún að skapa ný viðmið um aðbúnað aldraðra á hjúkrunarheimili til framtíðar. Þar sýndi hún kjark og þor sem er til eftirbreytni. Ég tel að flestir sem til þekkja telji að samningurinn við Sóltún sé til fyrirmyndar hvað varðar kröfur um aðbúnað heimilisfólks, umönnun, starfsfólk og þjónustu.

Það hefur hins vegar verið gagnrýnt að samningurinn hafi verið fjárhagslega dýr fyrir ríkið og gerð hafi verið ákveðin mistök af hendi ríkisins í þeim efnum. Einnig hefur verið bent á að ósanngjarnar kröfur hafi verið gerðar til forsvarsmanna heimilisins varðandi einstaka þjónustuþætti sem þarfnast endurskoðunar. Því má segja að með því að gera nýjan samning við Sóltún um stækkun heimilisins megi slá tvær flugur í einu höggi, annars vegar skapa hjúkrunarrými sem hægt er að taka til notkunar innan eins árs og um leið að leysa vanda LSH, og hins vegar að taka upp og endurskoða samninga við rekstraraðila Sóltúns. Ég tel að báðir aðilar ættu að sjá sér hag í slíkri endurskoðun.

Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að taka í framrétta hönd borgarstjórans í Reykjavík sem býðst til að taka á málinu með (Forseti hringir.) ákveðnum hætti og m.a. að skoða Sóltún í því sambandi.