133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

kostnaður vegna hjúkrunarrýma.

183. mál
[15:22]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er erfitt fyrir mig að meta hvað er langur ferill í þessu sambandi. Ég er sammála hv. þm. Margréti Frímannsdóttur um að það er fagnaðarefni að þessu er a.m.k. lokið og það er komin niðurstaða í málið. Það er mjög óþægilegt að hafa svona mál á reiki og í einhverri togstreitu milli ríkis og sveitarfélaga. Nú er komin niðurstaða og þá förum við eftir henni. Við vindum okkur í það verk að endurgreiða Árborg og Fjarðabyggð.

Varðandi það hvort inni í þessu sé einhver viðhaldskostnaður tel ég svo ekki vera, miðað við hvernig fyrirspurn hv. þingmanns er sett fram. Í henni er talað um stofnkostnað, meiri háttar viðhald og tækjakaup. Ég á von á því að þeir sem undirbjuggu þetta svar í heilbrigðisráðuneytinu hafi tekið allt inn í svarið þannig að ég geri ráð fyrir því að þetta sé tæmandi upptalning.