133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[15:56]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum höfnum kynbundnum launamun, við teljum algerlega óásættanlegt að hann sé við lýði en það er ýmislegt sem bendir til þess að svo sé, m.a. sú könnun sem hér er vitnað til.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til og leitað leiða til þess að skorin verði upp herör gegn launamun, m.a. lagt fram frumvarp um að ekki verði hægt að leyna hverjar launagreiðslur eru þegar grunur er uppi um kynbundinn launamun. Það þarf einfaldlega að koma þessum málum upp á borðið.

Það var jákvætt að heyra hæstv. ráðherra taka mjög jákvætt í þetta frumvarp. Ég er ekki viss um að hann sé svo linur en hann hefur vissulega Sjálfstæðisflokkinn í eftirdragi og þar er eflaust skýringa að leita, Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki hleypa þessu frumvarpi í gegnum þingið en það kom fram í umræðunni að Framsóknarflokkurinn er jákvæður. Við verðum að virða það í stjórnarandstöðunni þegar Framsóknarflokkurinn ratar á að gera eitthvað skynsamlegt.

Komið hefur fram að þessi óútskýrði launamunur sé 15,7% en rannsóknir á niðurstöðum sem þessum, á milli tveggja hópa sem vinna ekki nákvæmlega sömu störf heldur jafnvel mjög ólík störf, eru vandasamar og byggjast vissulega á þeirri aðferð sem notuð er. Þess vegna er ég ekki viss um að þessi launamunur sé akkúrat 15,7% heldur liggi á einhverju ákveðnu bili og því eigum við að nálgast þessa umræðu sem slíka.

Ég ætla að gera að umtalsefni annan mun sem er að aukast og það er launamunurinn almennt í samfélaginu. Það hefur komið fram, m.a. nýlega í svari hæstv. fjármálaráðherra, að Gini-stuðullinn er að hækka. Það væri fróðlegt að fá afstöðu hæstv. félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) til þess hvað hann vilji í rauninni að þessi launamunur (Forseti hringir.) í landinu verði mikill.