133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

teikning af legu raflínu frá Skagafirði til Húsavíkur.

235. mál
[18:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Virkjun Jökulsánna í Skagafirði hefur verið nokkuð til umræðu undanfarin ár og tengist hugsanlegri stóriðju í héraðinu. Rannsóknarleyfi hefur verið úthlutað vegna Villinganesvirkjunar og er umhverfismati lokið fyrir nokkru. Sá virkjunarkostur er því tilbúinn fyrir framkvæmdir með skömmum fyrirvara ef viðkomandi leyfi fást.

Virkjunin, ef af verður, veldur óbætanlegum skaða á gljúfrum Austari Jökulsár, gefur litla orku og auk þess er ekki þörf fyrir orkuna í Skagafirði jafnvel þótt ráðist yrði í byggingu meðalstórs iðnfyrirtækis þar. Það er ljóst að yfirgnæfandi hluti þeirra heimamanna sem tekið hafa afstöðu í þessu máli telja virkjun því aðeins koma til greina að orkan sem þannig fengist verði nýtt til atvinnuuppbyggingar í héraðinu. Engar líkur eru á stóriðjuframkvæmdum í Skagafirði í fyrirsjáanlegri framtíð. Vonandi kemur aldrei til þeirra þar sem þær mundu eyðileggja stórkostlega náttúru, hafa í för með sér spjöll á láglendi og óshólmum Héraðsvatna, strandlengjan færðist inn og dýralíf og vatnabúskapur Héraðsvatna gjörbreyttist og minnkaði.

Ég hef rætt við aðila í Skagafirði sem hefur tjáð mér að honum hafi verið sýnd teikning í iðnaðarráðuneytinu af raflínu frá virkjunum í Skagafirði til Húsavíkur. Það er ekki í samræmi við vilja meiri hluta heimamanna í Skagafirði, eins og ég kom að áðan. Heimamenn vilja að orkan verði nýtt í héraðinu ef af virkjun yrði.

Ég tel nauðsynlegt að fá staðfest hvort viðkomandi teikning er til í ráðuneytinu og spyr því:

Er til teikning í ráðuneytinu af legu raflínu frá virkjun í jökulám Skagafjarðar til Húsavíkur? Ef svo er, hver var tilgangurinn með gerð hennar?