133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2005.

[11:23]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Allsherjarnefnd fundaði með umboðsmanni Alþingis fyrr í vikunni til að fara yfir aðalatriði skýrslu hans fyrir árið 2005 og helstu niðurstöður hennar. Þetta hefur komið fram í umræðunni. Venja er fyrir því að nefndin fundi með umboðsmanni þegar skýrslan er lögð fyrir þingið.

Í inngangskafla skýrslunnar er farið yfir helstu viðfangsefni umboðsmanns og starfsfólks hans á árinu 2005. En ákvæði stjórnsýslulaga eru af eðlilegum orsökum þau lagafyrirmæli sem eru fyrirferðarmest í starfi umboðsmanns Alþingis. Markmið þeirra er, eins og kunnugt er, að auka réttaröryggi borgaranna í samskiptum þeirra við stjórnvöld.

Umboðsmaður lagði áherslu á það á fundi sínum með nefndinni að nauðsynlegt væri að koma betra skipulagi á störfin í stjórnsýslunni með réttaröryggissjónarmið að leiðarljósi og lét þess getið að starf hans væri að stórum hluta aðhaldsstarf gagnvart stjórnsýslunni og vegvísir til umbóta.

Mikilvægi umboðsmanns Alþingis verður ekki vanmetið í þessu sambandi. Hann hefur náð miklum árangri í störfum sínum því í miklum meiri hluta tilvika er tekið mark á ábendingum hans. Nær undantekningarlaust er það. Þetta má m.a. sjá á yfirliti á bls. 36 í skýrslunni þar sem kemur fram að einungis eitt stjórnvald hafi ekki farið eftir tilmælum umboðsmanns samkvæmt ályktun hans á árinu 2005.

Eins og segir í skýrslunni er stærsti einstaki málaflokkurinn sem umboðsmaðurinn fæst við tafir á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum. Við höfum gert þetta að umtalsefni á fyrri þingum þegar við höfum haft skýrslu umboðsmanns til meðferðar hér á þinginu eða til umfjöllunar. Það verður að segjast eins og er að þetta er auðvitað óviðunandi, ekki síst í ljósi þess að umboðsmaður Alþingis hefur vakið athygli á að það geti í sjálfu sér verið eðlilegar skýringar á því að mál taki lengri tíma en lög kveða á um eða stefnt er að, að einstök mál eigi að taka til sín í tíma. En þá skiptir máli að málsaðilar eða viðkomandi einstaklingar séu upplýstir og það kostar stjórnvöld sannarlega ekki mikið að gera grein fyrir því með einfaldri bréfasendingu, að málið hafi verið móttekið, það sé í farvegi og verði því miður ekki afgreitt innan tilskilins frests.

Það er í sjálfu sér þetta litla atriði sem svo miklu máli skiptir, sem við höfum verið með til umfjöllunar í tengslum við tafir í stjórnsýslunni. Ég hlýt að þurfa að lýsa miklum vonbrigðum með að við skulum ekki sjá hraðari þróun í rétta átt en raun ber vitni.

Jafnframt kemur fram í skýrslunni að breytingar á verkefnum og verklagi innan stjórnsýslunnar endurspeglist gjarnan í þeim málum sem umboðsmaður Alþingis fær til meðferðar. Í umræðunni í dag hefur verið komið aðeins inn á fangelsismálin. Það er nefnilega þannig að í skýrslunni segir að skráðar kvartanir vegna fangelsismála hafi verið 10 árið 2005 en 20 árið 2004. Samkvæmt upplýsingum sem umboðsmaður veitti allsherjarnefnd á fundi sínum með nefndinni í vikunni hefur orðið framhald á þessari jákvæðu þróun á líðandi ári.

Umboðsmaður benti sérstaklega á málefni fanga sem dæmi um mál sem væru í réttum farvegi og sagði að fangar og aðstandendur þeirra hefðu miklar væntingar til breytinga sem verið væri að gera, bæði á sviði stjórnar fangelsismála og nýs lagaumhverfis. En að sjálfsögðu verður áfram fylgst með þróun á þessum vettvangi.

Umboðsmaður gerir stjórnsýslumat vegna lagafrumvarpa að sérstöku umtalsefni í skýrslu sinni. Hann varpar fram þeirri hugmynd að við framlagningu lagafrumvarpa á Alþingi mundi fylgja þeim nokkurs konar stjórnsýslumat auk þess kostnaðarmats sem fylgir öllum stjórnarfrumvörpum sem lögð eru fram.

Þar kæmi fram greining á áhrifum frumvarpsins á verkefni stjórnsýslunnar og hvaða breytingar þurfi að gera þar, svo sem á verklagi og fjölda starfsmanna, ef frumvarpið væri afgreitt í óbreyttri mynd. Einnig gæti slíkt mat falið í sér greiningu á samspili verkefna og ákvarðana sem viðkomandi frumvarp fæli í sér við almennar reglur stjórnsýslu og upplýsingalaga.

Umboðsmaður bendir á að með þessum hætti ætti stjórnsýslan auðveldara með að átta sig á því fyrir fram hvernig bregðast ætti við nýjum verkefnum og Alþingi ætti auðveldara með að átta sig á því hvort frumvarpið væri til einföldunar í stjórnsýslunni eða hvort tilefni væri til að auka við umfang hennar.

Ég vil segja að það er þakkarvert að í skýrslu umboðsmanns sé ekki eingöngu bent á vandamál sem eru til staðar við framkvæmd stjórnsýslunnar, heldur er einnig bent á mögulegar leiðir til úrbóta. Ég hygg að ástæða sé til fyrir þingið að taka það til skoðunar hvort stjórnsýslumat á borð við það sem ég hef tekið til umfjöllunar og rætt er í skýrslu umboðsmanns gæti komið til álita við undirbúning lagasetningar. Þannig gætu menn mögulega betur gert sér grein fyrir því fyrir fram hvaða afleiðingar löggjöf sem verið er að setja hefur.

Sannarlega þekki ég dæmi þess úr störfum mínum í fjárlaganefnd að oft er skortur á því að þingið hafi gert sér grein fyrir því fyrir fram hvaða afleiðingar lagasetning hefur í þessu tilliti. Bæði á það við um umfang þeirrar starfsemi sem verið er að setja af stað og eins hreinan stofnkostnað og annað þess háttar. Ætli nýjasta dæmið sem ég er með í kollinum sé ekki Landbúnaðarstofnun, um einmitt þetta, (Gripið fram í.) sem er einmitt á fjáraukalögum núna. Þannig gætu menn séð þessi mögulegu vandamál fyrir fram. Þetta mundi því gagnast Alþingi sem tæki til að rækja enn betur eftirlits- og aðhaldshlutverk sitt með framkvæmdarvaldinu.

Ég vil vekja athygli á bls. 23 í skýrslu umboðsmanns þar sem farið er yfir opinberu eftirlitsnefndirnar og síðan þá lagasetningu sem þar gildir. Ég held að það sé sannarlega ástæða til að kalla eftir því hjá ríkisstjórninni hvort hún ætli að fara að tilmælum þeirrar nefndar sem tók áhrif laga um opinberar eftirlitsreglur og störf ráðgjafanefndar, sem starfar samkvæmt lögum, árin 2002–2005 til skoðunar, um að hnykkja á reglunum með sérstakri ríkisstjórnarsamþykkt eins og sú nefnd hafði lagt til.

Á fundi með umboðsmanni var nokkuð rætt um aðgengi borgaranna að dómstólunum og í tengslum við ákvarðanir stjórnvalda. Það kom fram í umræðu í nefndinni að það væri mögulega ástæða til að virkja dómskerfið betur í þessu sambandi.

En ég ætla að lokum að koma aðeins inn á tvær frumkvæðisathuganir sem kynntar voru nefndinni. Þær varða annars vegar skráningu og afgreiðslu mála hjá 32 stjórnvöldum, samanber fyrir árin 2002–2006 og hins vegar afgreiðslutíma 48 sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda.

Í fyrri athuguninni kemur fram að stjórnvöld skrá mál alla jafna með skipulegum hætti og af könnun á afgreiðslu erinda má ráða að stjórnsýslan sé nokkuð skilvirk og afgreiði megnið af þeim erindum sem henni berast á nokkuð skömmum tíma. Þó getur verið nokkur misbrestur á því að stjórnvöld svari erindum innan eðlilegra tímamarka og einhver dæmi finnast um að mál hafi hreinlega dagað uppi. Þá er rétt að geta þess að þeim stjórnvöldum sem fylgja skráðum reglum um málshraða fjölgaði nokkuð meðan á athuguninni stóð. Þannig höfðu tvö ráðuneyti sett sér skráðar reglur um málshraða árið 2006 í stað einskis áður. Sex fylgdu viðmiðun um málshraða, bæði árið 2002 og 2006 en fjögur höfðu hvorki reglur né viðmið árið 2006 í stað sex ráðuneyta árið 2002.

Í seinni athuguninni segir síðan að fjöldi erinda sem sjálfstæðum stjórnsýslu- og úrskurðarnefndum berast sé stöðugur og heldur vaxandi. Helmingur nefndanna hefur lögmæltan afgreiðslutíma og þessar nefndir afgreiddu tæpan helming þeirra mála sem þeim bárust innan frestsins.

Í athuguninni komu fram vísbendingar um að málsmeðferðartími sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda sé almennt að lengjast. Umboðsmaður bendir á að að hans mati hafi verið ástæða til að tilkynna málsaðila um tafir á vinnslu hátt í 800 mála á þeim tímabilum sem könnunin tók til. Það var hins vegar einungis gert í 75 málum. Ég vék að þessu fyrr í ræðu minni. Það er sem sagt þannig hjá nefndunum að í minna en 10% tilvika hefur þessari tilkynningarskyldu verið sinnt.

Könnun umboðsmanns sýnir glögglega að víða er pottur brotinn í störfum þeirra nefnda sem hún tekur til og rétt að huga vel að því með hvaða hætti unnt sé að bæta málsmeðferð hjá nefndunum. Ég vil leyfa mér að velta því upp hvort við eigum hugsanlega að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar í heild sinni.

Hér í umræðunni hefur áður verið vakin athygli á því hve mjög nefndunum hefur fjölgað. Það verður ekki annað sagt en að með þessari miklu fjölgun nefndanna hafi verið mörkuð ákveðin stefna. Mál hafa verið færð í ríkum mæli úr ráðuneytunum til nefnda sem eiga þá að taka mál til úrskurðar sem áður voru afgreidd í ráðuneytunum að stórum hluta til. Þessi úttekt og þær niðurstöður sem við höfum nú fyrir framan okkur benda til þess að eitthvað hafi farið úrskeiðis á þeirri vegferð. Það er eitthvað sem gengur ekki upp í þeirri hugmyndafræði sem liggur þessu að baki. Ég vil leyfa mér að efast stórlega um að þeirri fagmennsku og þeim málshraða sem hlýtur að hafa verið stefnt að með þessari stefnumörkun, verði náð með þessu fyrirkomulagi.

Þess vegna hlýtur það að koma til skoðunar að stórfækka þessum nefndum ýmist þá með sameiningu eða með því að fella þær hreinlega niður og færa verkefnin aftur til ráðuneytanna. Mögulega mætti skoða leiðir til að færa sum verkefnin til sýslumannsembætta eða hreinlega að greiða aðgengi borgaranna að dómstólunum með þau mál sem þarna er verið að úrskurða um. Í öllu falli sýnist mér að við getum ekki haldið málunum í þeim farvegi sem þau eru í núna.

Ég held að ég láti þetta duga sem mitt innlegg um skýrsluna. Ég þakka fyrir greinargóða skýrslu og vel unnin störf hjá embætti umboðsmanns Alþingis. Sérstaklega vil ég taka fram að mér finnst öll framsetning í skýrslunni vera til mikillar fyrirmyndar og skýrsla eins og þessi, sem mjög auðvelt er að gera óaðgengilega og þurra, er gerð mjög aðgengileg og skýr með inngangi í skýrslunni og þeim töflum, súluritum og öðrum myndskýringum sem þar er að finna.