133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2005.

[11:37]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og aðrir að þakka fyrir þessa ágætu skýrslu. Í henni kemur afar margt athyglivert fram og ég ætla að koma inn á nokkur þeirra atriða hér.

Það kom fram í máli hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur hversu mikilvægt embætti umboðsmanns Alþingis sé og við að eigum að standa vel að því embætti, umboðsmanni Alþingis, vegna þess að hann stendur í framvarðarsveit hvað varðar réttarstöðu borgaranna gagnvart stjórnvöldum og það er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt.

Virðulegi forseti. Á þeim tíma sem við höfum til að ræða þetta ætla ég að fara aðallega inn á tvo þætti í þessari skýrslu sem báðir eru undir kaflanum Framkvæmd stjórnsýslulaga á blaðsíðum 11–14. Þar kemur nefnilega nokkuð afar athyglisvert fram sem mikilvægt er fyrir þingheim að taka til gagngerrar athugunar og það er hvernig umgengni í stjórnsýslunni er gagnvart og um stjórnsýslulögin. Í þessari skýrslu kemur fram að þrátt fyrir að rúmur áratugur sé liðinn frá því að stjórnsýslulögin tóku gildi þá skorti mjög á að ýmsum reglum laganna sé fylgt í hinu daglega starfi stjórnvalda. Þetta er athugasemd sem við verðum að taka mjög alvarlega vegna þess að stjórnsýslulögin eiga jú að standa vörð um rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum.

Virðulegi forseti. Mér þykir líka afar áhugavert hvernig komið er inn á og greint frá því að það sé handahófskennt og tilviljanakennt hvernig farið sé með þessi stjórnsýslulög eða umgengni er við þau innan stjórnsýslunnar. Sérstaklega er hérna setning sem slær mig dálítið, þ.e. umboðsmaður greinir frá því að hann fái oft vitneskju um að einstakir starfsmenn séu eljusamir við að fylgja stjórnsýslulögum en það fái oft heldur dræmar undirtektir yfirmanna. Þetta er nokkuð sem ég hefði viljað að við skoðuðum sérstaklega og mér þykir mjög mikilvægt sem bent er á hér og hefði viljað heyra það hjá hæstv. forseta ef hún kemur hér upp á eftir, að hér verði gefin yfirlýsing um að ráðist verði í það verkefni strax að fræða starfsmenn innan stjórnsýslunnar um stjórnsýslulögin eins og lagt er til í þessari skýrslu. Þetta á að vera algjört forgangsatriði núna innan stjórnsýslunnar miðað við þær mikilvægu ábendingar sem koma hér fram.

Eins og réttilega er bent á í þessari góðu skýrslu þá snýst þetta líka um gæði stjórnsýslunnar. Eins og fram kemur þar á hlutverk þessara lagareglna að vera gæðastaðall fyrir starfsemi stjórnsýslunnar þannig að auðvitað verða þarna hlutirnir að vera í lagi. Ég legg til að við tökum strax upp þær ábendingar sem hér koma um að ráðast strax í gerð fræðsluefnis um stjórnsýslulögin fyrir starfsmenn innan stjórnsýslunnar.

Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að koma inn á annað atriði í þessum kafla. Það er að í þessum kafla á bls. 13 kemur fram að vakin er athygli á því að í þessari skýrslu sé í nokkrum álitum fjallað um þá reglu 23. gr. upplýsingalaga að stjórnvaldi sé skylt að skrá niður upplýsingar um málsatvik sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Virðulegi forseti. Í þessum kafla er síðan greint frá nokkrum málum eða nokkrum álitum frá umboðsmanni þar sem fjallað er um undirbúning að ráðningu í störf hjá ríkinu.

Áhugaverðast við þennan hluta kaflans er að í niðurlagi hans segir, með leyfi forseta:

„Sama er að mínum dómi oft uppi á teningnum hjá stjórnvöldum þar sem reglum stjórnsýslulaga og upplýsingalaga hefur ekki verið fylgt. Það er því verk að vinna að auka þekkingu starfsfólks stjórnsýslunnar á þessum reglum.“

Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að staldra við þessi orð. Ég segi þetta vegna þess að við höfum nýlegt dæmi um að ekki hafa verið skráð mikilvæg mál innan stjórnsýslunnar. Vil ég í því sambandi nefna sem dæmi skýrslu Gríms Björnssonar sem hann sendi orkumálastjóra og var til meðferðar iðnaðarráðuneytisins ári áður en formleg skráning á málinu kom til innan þess ráðuneytis. Virðulegi forseti. Þetta vil ég nefna hér sem dæmi vegna þess að þegar við skoðum 22. gr. upplýsingalaganna kemur þar skýrt fram að stjórnvöldum sé skylt að skrá mál sem koma til meðferðar hjá þeim á kerfisbundinn hátt og varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg. Þrátt fyrir að ekki sé sérstaklega um þetta mál fjallað í þessari skýrslu þá er hér bent á að í ýmsum málum sé brotalöm á því að upplýsingalögum sé fylgt innan stjórnsýslunnar. Því finnst mér mikilvægt að draga þetta mál hér fram vegna þess að það er frá árinu 2002 og það kemur skýrt fram í greinargerð frá ráðuneytinu um aðkomu ráðuneytisins að meðhöndlun á athugunum Gríms Björnssonar að það mál hafi verið til meðferðar á æðstu stigum innan iðnaðarráðuneytisins í febrúar, um miðjan febrúar árið 2002. Það segir hreinlega í greinargerð ráðuneytisins, í niðurstöðu, með leyfi forseta:

„Af skoðun á gögnum málsins og samtölum við starfsmenn verður ekki annað ráðið en að skrifstofustjóri orkumálaskrifstofu“ — sem er innan ráðuneytisins — „og fulltrúar Orkustofnunar og Landsvirkjunar hafi haft vitneskju um málið á þeim tíma sem Alþingi fjallaði um frumvarp iðnaðarráðherra til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Þeir hafi metið það svo að athugasemdir Gríms vörðuðu atriði sem krefðust sérþekkingar sem sérfræðingar væru í bestri aðstöðu til að svara og rétt væri að gefa Landsvirkjun kost á að tjá sig um þær áður en afstaða væri tekin til þeirra.“

Virðulegi forseti. Þarna kemur skýrt fram að málið var til meðferðar innan ráðuneytisins en það er ekkert skráð um þetta mál innan ráðuneytisins eins og hefði átt að gera samkvæmt 22. gr. upplýsingalaga. Þarna er veruleg brotalöm á ferðinni, virðulegi forseti, sem við verðum að laga. Það gengur ekki ef við ætlum að reka hér ábyrga stjórnsýslu ef menn skrá ekki mál eins og vera ber og hvað þá að við séum að setja lög og reglur um skráningu mála hjá stjórnsýslunni og því er ekki fylgt.

Mér finnst þetta gott dæmi um þá brotalöm sem augljóslega er innan stjórnsýslunnar. Á þessu verður hv. Alþingi að taka. Því segi ég, virðulegi forseti, að lokum þetta: Ég hvet hæstv. forseta Alþingis til að ráðast strax í að búa til fræðsluefni, eins og bent er á í þessari skýrslu, fyrir starfsmenn sem koma til starfa innan stjórnsýslunnar um umgengni við stjórnsýslulögin og upplýsingalögin og önnur þau lög sem þeir þurfa að fylgja vegna þess að það er mjög alvarlegt þegar slíkar brotalamir finnast eins og skýrsla Gríms er glöggt dæmi um.