133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2005.

[11:46]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2005. Umboðsmaður Alþingis hefur verið starfandi í vel á annan áratug. Ég held að enginn deili um hve mikil, góð og jákvæð áhrif starfsemi umboðsmanns Alþingis hefur haft á stjórnsýslu í landinu.

Það kemur fram í skýrslunni að árinu 2005 hafi 325 mál hlotið lokaafgreiðslu af hálfu umboðsmanns en 78 mál hafi enn verið óafgreidd. Þetta er nokkur fækkun frá árinu á undan þegar 279 mál voru afgreidd en mál til meðferðar voru þá í árslok 89.

Það vekur athygli að það skuli í megindráttum vera sömu mál sem koma til umfjöllunar umboðsmanns Alþingis ár eftir ár. Þessir málaflokkar snúa fyrst og fremst að sköttum og gjöldum, málefnum opinberra starfsmanna, sjávarútvegsmálum, almannatryggingum og meðferð ákæruvalds. Ég vek hins vegar athygli á því að málum sem felld hafa verið undir flokkinn ,,málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar“ hefur fækkað frá árinu 2004. Við skulum því vona að einhver framför hafi orðið í þeim efnum.

Þá vil ég sömuleiðis vekja athygli á því, eins og fram hefur komið í máli annarra hv. alþingismanna, að málum er varða meðferð og réttindi fanga hefur fækkað mjög á síðustu árum. Þau voru 20 árið 2004 en eru nú 10 talsins. Það kemur fram í skýrslunni að það sé kannski að hluta til vegna nýrra laga en líklega er skýringin frekar falin í nýjum forstöðumanni Fangelsismálastofnunar og breytinga á áherslum sem þar hafa orðið.

Ég hjó þó eftir einu varðandi fangelsismálin og ég spurðist sérstaklega fyrir um það á nefndarfundi í allsherjarnefnd. Það varðar agaviðurlög gagnvart föngum, þ.e. að fram komu þær athugasemdir umboðsmanns að möguleiki væri á því að menn væru þar að misbeita úrræðum í nýjum lögum, en á því hefur verið tekið af hálfu yfirstjórnar Fangelsismálastofnunar ríkisins. Við skulum því vona að sú framkvæmd sé úr sögunni en þetta varðar beitingu einangrunar í ákveðnum tilvikum.

Ég vek líka athygli á því að á fundi umboðsmanns með allsherjarnefnd kom fram að heilbrigðisþjónusta við fanga væri öll að komast í lag, bæði með fjölgun geðlækna og aukinni sálfræðiþjónustu. Við skulum vona að þau mál séu sömuleiðis að komast í gott horf.

Ég fagna því sérstaklega að umboðsmaður hefur lagt áherslu á framkvæmd stjórnsýslulaganna og beint tilmælum um það til stjórnvalda, m.a. um að stjórnvöld framsendi erindi sem ekki heyra undir þau heldur annað stjórnvald. Sömuleiðis eru tilmæli um málshraða, reglur um málshraða, reglur um tilkynningu um tafir sem eru fyrirsjáanlegar á afgreiðslu máls, leiðbeiningar um birtingu ákvörðunar og að beiðnum um rökstuðning sé svarað. Þetta eru allt mál sem skipta borgarana verulegu máli og mikilvægt að stjórnvöld fari að lögum í þeim efnum.

Það er gott til þess að vita að umboðsmaður hefur tekið upp nokkur mál að eigin frumkvæði, m.a. fjallað um afgreiðslutíma úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem ég mun koma að síðar í ræðu minni og sömuleiðis varðandi skráningu skriflegra erinda, svo dæmi séu tekin.

Ég vil nefna, sem ekki hefur áður verið nefnt í umræðunni, þá hugmynd umboðsmanns að tekið verði upp sérstakt stjórnsýslumat vegna lagafrumvarpa. Eins og hv. þingmenn vita hefur það verið tíðkað á undanförnum árum að gera sérstakt kostnaðarmat sem fylgi stjórnarfrumvörpum. En umboðsmaður leggur til að jafnframt verði gert sérstakt stjórnsýslumat. Ég held að þessi hugmynd sé skoðunar virði, þ.e. að menn viti hvað felist í þeim frumvörpum sem fjallað er um á þingi. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort þetta mat eigi að fara fram áður en frumvarp er lagt fram eða við meðferð þingnefnda. Ég tel allt eins koma til greina að slíkt mat gæti farið fram á vegum Alþingis sjálfs, þ.e. nefndasviðs Alþingis, og gæti þá verið þáttur í því að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Á fundi allsherjarnefndar var fjallað um tvö álit umboðsmanns Alþingis, annars vegar vegna athugunar á afgreiðslutíma 48 sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda og hins vegar athugunar umboðsmanns á skráningu og afgreiðslu mála hjá 32 stjórnvöldum. Ég tel vinnubrögðin hjá umboðsmanni mjög til fyrirmyndar. Það má segja að meginniðurstöður álitsins um skráningu erinda séu þær að stjórnvöld séu öll að koma til í þessu máli, þ.e. framkvæmdarvaldið. Tæknibúnaður hefur batnað og notkun á rafrænni málaskrá er nánast orðin alger. Það vekur þó athygli að tvö af 32 stjórnvöldum hafa ekki tekið upp rafræna málaskrá, sem er nokkuð sem viðkomandi stjórnvöld verða að bregðast við.

Það kemur líka fram í skýrslu umboðsmanns að á árinu 2002 höfðu einungis fjögur stjórnvöld af 32 reglur til viðmiðunar um afgreiðslutíma erinda, þeim hafði fjölgað upp í níu vorið 2006. Samt sem áður styðjast 28% stjórnvalda hvorki við skriflegar reglur um málshraða né fylgja ákveðnum viðmiðunum. Þetta hlutfall er of hátt og auðvitað þarf að útrýma þessu. Það sem vekur kannski enn frekar athygli að 63% stjórnvalda hafa ekki reglubundið eftirlit með stöðu og afgreiðslu mála innan sinna vébanda, þ.e. árið 2002 en þetta hlutfall hafði lækkað niður í 50% árið 2006. Þessar breytingar eru allt of hægar og taka of langan tíma.

Að því er varðar álit umboðsmanns vegna athugunar á afgreiðslutíma sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda er fyrst til þess að taka að á síðustu árum hefur sjálfstæðum úrskurðarapparötum á sviði stjórnsýslunnar fjölgað gríðarlega mikið. Eins og fram kemur í skýrslunni tók Friðgeir Björnsson héraðsdómari saman yfirlit um þetta árið 2005. Þar kom fram að af 58 nefndum hefðu 34 eða 58% verið stofnaðar á síðustu tíu árum. Ráðuneytin hafa í auknum mæli losað sig við það verkefni að úrskurða í deilumálum á milli einstaklinga, lögaðila og lægra settra stjórnvalda. Þetta hefur tekist misvel eins og fram kemur í áliti umboðsmanns. Það liggur fyrir að ríflega helmingur þessara úrskurðarnefnda fjalla um færri mál en tíu, en hins vegar eru sex nefndir eða kannski um 10% sem fjalla um fleiri en 100 mál. Ég tek undir það með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að auðvitað er fyrir neðan allar hellur að úrskurðarnefndir á vegum stjórnsýslunnar skuli ekki svara umboðsmanni Alþingis um afgreiðslu erinda þrátt fyrir ítrekanir.

Einungis helmingur mála er afgreiddur innan lögbundins frests. Verra er að afgreiðslutíminn er að lengjast, sem er nokkuð sem við verðum að bregðast við á hinu háa Alþingi. Það kemur líka fram að tafir á vinnslu eða afgreiðslu mála voru ekki tilkynntar í 90% mála. Það er algjörlega óviðunandi. Ég tel að við þurfum að taka þessi mál til umræðu og gagngerrar skoðunar á Alþingi og velta fyrir okkur ýmsum atriðum í þeim efnum. Spurning er hvort yfirleitt sé þörf á þessum úrskurðarnefndum í sumum tilvikum og í öðrum tilvikum hvort ástæða sé til að stofna sérstaka úrskurðarnefnd sem hefði öll mál til meðferðar.

Ég vildi leyfa mér að nefna sérstaklega einn málaflokk, þ.e. úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Sú nefnd hefur margoft verið til umræðu í þingsölum og margoft verið reynt að lappa upp á bæði starfsaðstöðu og afgreiðslutíma þeirrar nefndar. Ef ég man rétt á úrskurðarnefndin að afgreiða mál á átta vikum en því miður er afgreiðslutíminn talinn í árum hjá þeirri nefnd. Ég hef velt því fyrir mér hvort það væri ekki rétt að leggja þessa nefnd hreinlega niður og veita þeim fjármunum sem til hennar fara til að stofna t.d. embætti tveggja héraðsdómara, annars vegar í Reykjavík og hins vegar á Reykjanesi. Það mætti þá afgreiða þessi mál með sérfróðum meðdómendum eftir atvikum en aðalatriðið er að það á að vera hægt að leiða í ljós fljótlega hvort ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis standist deiliskipulag eða aðalskipulag. Það á ekki að þurfa t.d. að taka tvö ár að finna út hvort í gildi er deiliskipulag á viðkomandi svæði sem leyfi byggingu tiltekinnar eignar.

Það þýðir því ekki lengur að plástra í þessum málum. Við verðum að gera eitthvað í afgreiðslutíma stjórnvalda og þurfum að taka til gagngerrar skoðunar hvort ástæða sé til að hafa allar þessar úrskurðarnefndir, eins og ég gat um fyrr í ræðu minni.

Ég vil að endingu þakka umboðsmanni Alþingis fyrir hans góðu störf og þessa ágætu skýrslu. Ég vona að hún verði til þess að stjórnsýslumálin komist í enn betra lag hér á landi.