133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:50]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talaði um Ríkisendurskoðun sem mjög góða stofnun og ég verð að skilja það sem svo að hann dragi nú eitthvað í land í yfirlýsingum sínum gagnvart ríkisendurskoðanda, enda veitti víst ekki af. Það sem skiptir máli er það að Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðandi er fulltrúi Alþingis en ekki framkvæmdarvaldsins. Það erum við, hv. þingmenn sem hér erum, sem förum með ríkisendurskoðunarmál. Ríkisendurskoðandi er fulltrúi okkar en ekki fulltrúi ríkisstjórnarinnar eða einstakra ráðherra. (Gripið fram í.) Það er auðvitað það sem skiptir máli þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson setur fram fullyrðingar eins og þær sem hann gerði í ræðu sinni áðan. Ég ítreka að þetta eru ómaklegar fullyrðingar og það er ómaklega ráðist að ríkisendurskoðanda með þessum hætti.

Hverjar eru svo tillögur Samfylkingarinnar í þessum efnum? Hv. þingmaður er búinn að sitja miklu lengur á Alþingi en ég. Hvað hefur hann lagt fram um ráðningu ríkisendurskoðanda? Er þetta ekki bara með sama hætti og í öðrum málum sem snúa að Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni? Það þarf alltaf að breyta öllum hlutum en svo eru engar hugmyndir um hvernig breytingarnar eigi að vera. (Gripið fram í: Jú, við …) Það er ekkert gert, það er bara patað út í loftið og engar hugmyndir, engin ráð og engar tillögur.