133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:31]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson brást illa við þeim orðum sem ég lét falla um hæfi ríkisendurskoðanda og verður að hafa það þótt hann hafi aðra skoðun á þessu máli en ég. Ég tel mig hafa góð rök fyrir því að halda því fram að ríkisendurskoðandi sé háður valdamönnum í samfélaginu eða hafi verið það á undanförnum árum vegna endurkjörs. Ég tel að full ástæða sé til að Alþingi gefi gaum að því. Mér finnst að þeir þingmenn stjórnarflokkanna, eins og hv. þingmaður, sem eru ekki tilbúnir að skrifa upp á þau rök, eigi að velta því svolítið fyrir sér hvort þeir hafi ekki verið sjálfir of háðir framkvæmdarvaldinu á undanförnum árum og hvort ekki geti verið að þátttaka þeirra í atkvæðagreiðslum hafi æðioft verið sprottin af því að þjóna þyrfti framkvæmdarvaldinu, að þjóna þyrfti ríkisstjórninni.

Ég satt að segja nenni ekki að rifja upp það mál sem ég ætti þó kannski að nefna, sem er hið gamla Landsbankamál, sem var fullkomin sönnun fyrir því að ríkisendurskoðandi var í rauninni handbendi stjórnvalda í því máli. Ég hef farið yfir það, bæði í blaðagreinum og í ræðum á Alþingi áður og endurtek þá fullyrðingu mína. Ég tel að framgangur þess máls hafi sýnt það alfarið að hann var handbendi stjórnvalda þá. Hann bjargaði bankaráði Landsbankans og stjórnendum hans frá því að þurfa að segja af sér. Til þess var stofnunin notuð og ég set þetta fram sem skoðun mína, hef gert það áður og tel ástæðu til að nefna það vegna þess að rök eru fyrir því að hafa þurfi önnur vinnubrögð við val á þeim sem stjórna þeirri stofnun.

Svo er það heldur ekki rétt hjá hv. þingmanni, ég svo sem virði honum það til vorkunnar því hann hefur ekki verið mjög lengi á Alþingi, að Samfylkingin hafi ekki lagt fram ýmis mál í þeim tilgangi að koma á betra starfsskipulagi og betri stjórnfestu í stjórnkerfinu á Íslandi. Ég nefndi sem hliðstæðu við það að velja þurfi með öðru móti stjórnendur Ríkisendurskoðunar, að mjög er gagnrýnt með hvaða hætti Hæstiréttur er valinn. Við höfum lagt fram ítarlegar tillögur og hugmyndir um hvernig eigi að gera það.

Ég held að menn megi ekki víkja sér undan óþægilegri umræðu í sölum Alþingis, jafnvel þó að einhverjir sem hlut eiga að máli að einhverju leyti séu staddir í húsinu, þá getur maður það ekki. Ég segi þess vegna meiningu mína hvað þetta varðar. Mér finnst að Alþingi sem hefur valið þá leið, sem er góð, að hafa ríkisendurskoðanda og Ríkisendurskoðun til að fylgjast með stofnunum og til að fjalla um óþægileg mál sem geta komið upp og munu alltaf koma upp í stjórnkerfinu, að Alþingi verður þá að vera þess umkomið að ræða hvernig hægt er að koma slíku eftirliti fyrir þannig að enginn efist um að þar sé gætt fyllstu hlutlægni. Það er það sem ég vildi ræða.

Ég læt svo ræðu minni lokið. Ég tel enga ástæðu til að fara frekar yfir þetta. Ég vil þó segja, af því að hv. þingmaður nefndi aftur þá skýrslu sem nú liggur fyrir um sölu á Búnaðarbankanum, að mér finnst að ráðamenn, alþingismenn og ráðherrar, séu aldrei hæfir til þess að taka ákvarðanir um að selja sínum eigin fyrirtækjum neitt úr hendi ríkisins.