133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[16:09]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá að fram er komið frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem gengur í átt að þeim sjálfsögðu og eðlilegu kröfum sem uppi hafa verið hjá öldruðum um breytingar á lögum um almannatryggingar.

Á sama tíma og ánægjulegt er að sjá málið komið fram verður maður fyrir vonbrigðum með innihaldið og hve skammt er gengið í frumvarpinu. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að Landssamband eldri borgara hefði tekið þátt í þessari vinnu og standi að þeim tillögum sem þarna eru gerðar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé þannig, hvort það sé bullandi ánægja hjá Landssambandi eldri borgara með þetta frumvarp. Hefur ráðherra ekki heyrt umkvartanir landssambandsins um að ekki hafi verið gengið nógu langt í átt að því sem lagt var til í viðræðum eldri borgara við ríkið og að þeir hafi nánast verið undir hótunum um að tekið yrði af þeim það sem hér er sett fram ef þeir samþykktu þetta ekki. Hefur hæstv. ráðherra ekki orðið vör við þessar umkvartanir og þau sjónarmið hjá Landssambandi eldri borgara?

Annað varðandi frítekjumarkið. Tæp 17 þús. kr. á mánuði sem tekur gildi árið 2009, löngu eftir að ný ríkisstjórn hefur tekið við, og hækkar í 25 þús. kr. á mánuði árið 2010. Hvað er því til fyrirstöðu að hækka frítekjumarkið strax? Hvað er því til fyrirstöðu að ganga til móts við þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar um að hækka þetta frítekjumark í 75 þús. kr. á mánuði frá næstu áramótum eða 900 þús. kr. á ári? Ég hefði gaman af því að hæstv. ráðherra svaraði því. Ég held að það að heimila öldruðum að ná sér í atvinnutekjur sem eitthvað munar um komi ekki til með að kosta ríkið verulega fjármuni.