133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar.

232. mál
[19:03]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á viðurlagaákvæðum í ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar.

Í janúar sl. skipaði ég nefnd til að fara yfir viðurlagaákvæði í lögum sem heyra undir starfssvið sjávarútvegsráðuneytisins. Var nefndinni falið að leggja mat á ákvæðin og gera eftir atvikum tillögur um breytingar á þeim. Eins og fram kemur í skipunarbréfi nefndarinnar var þar einkum átt við lög um stjórn fiskveiða, lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lög um umgengni um nytjastofna sjávar og lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Í skipunarbréfinu var jafnframt tekið fram að nefndin skyldi hafa viðeigandi samráð við hagsmunaaðila.

Nefndin skilaði mér tillögum sínum í september sl. Í greinargerð sem fylgdi þeim kemur fram að nefndin telji að viðurlagaúrræði þau sem er að finna í fyrrnefndum lögum hafi almennt reynst vel og séu nægjanleg en þó leggi nefndin til að nokkrar breytingar verði gerðar á þeim. Lagafrumvarp þetta er í samræmi við þessar breytingartillögur.

Með frumvarpinu er lagt til að felld verði brott sérákvæði um sektir við brotum gegn tilteknum ákvæðum laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Sektarákvæði í öllum fyrrnefndum lögum er varða stjórn fiskveiða verða þá að fullu samræmd þannig að við fyrsta brot gegn þeim verður engin ákveðin lágmarkssekt en 4 millj. kr. sekt að hámarki, en ítrekuð brot gegn þeim varða á hinn bóginn að lágmarki 400 þús. kr. og að hámarki 8 millj. kr. sekt.

Samkvæmt frumvarpinu skal Fiskistofa við fyrsta minni háttar brot gegn ákvæðum laga um stjórn fiskveiða og laga um umgengni um nytjastofna sjávar veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu í stað þess að svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni eins og leiðir af núgildandi lagaákvæðum.

Lagt er til að við lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands verði bætt ákvæði um að brot gegn lögunum skuli varða áminningum og sviptingum svonefndra sérveiðileyfa og að um slík mál fari eftir sömu reglum og eiga við um áminningar og sviptingar leyfa til veiða í atvinnuskyni.

Þá er í frumvarpinu lagt er til að við fyrsta minni háttar brot gegn reglum er varða vigtun sjávarafla skuli Fiskistofa veita hlutaðeigandi aðilum skriflega áminningu en ekki afturkalla vigtunarleyfi þeirra eins og núgildandi ákvæði gera ráð fyrir. Einnig er þar gerð sú tillaga að sett verði í lög ákvæði um að hafi vigtunarleyfi verið afturkallað skuli ekki veita hlutaðeigandi aðila slíkt leyfi að nýju fyrr en að tilteknum tíma liðnum.

Þá er samkvæmt frumvarpinu gert ráð fyrir að felld verði úr lögum heimild til að svipta fiskmarkað rekstrarleyfi vegna brota gegn reglum um vigtun sjávarafla.

Í frumvarpinu er lagt til að lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um veiðar utan fiskveiðilögsögu Íslands verði breytt þannig að tiltekin brot gegn lögunum varði ekki skilyrðislausa upptöku afla og veiðarfæra, eins og nú er þar mælt fyrir um, heldur verði dómstólum veitt heimild til að meta og ákveða í hverju einstöku máli hvort rétt sé að gera afla og/eða veiðarfæri upptæk.

Loks er í þessu frumvarpi lagt til að skilgreiningu á ólögmætum afla samkvæmt lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, verði breytt til að samræma hana fyrrnefndum lagaákvæðum um upptöku afla og laga að tilteknum breytingum sem gerðar hafa verið á stjórnkerfi fiskveiða. Verði þessi breytingartillaga að lögum verður á grundvelli laga nr. 37/1992 einungis lagt á gjald vegna afla sem er umfram það aflamark sem veiðiskip hefur og afla sem sýnt er fram á að ekki hefur verið veginn og skráður í samræmi við lög og reglur en verður hins vegar ekki rakinn til ákveðins fiskiskips.

Virðulegi forseti. Ég tel að tillögur þær um breytingar á viðurlagaákvæðum umræddra laga á sviði fiskveiðistjórnar sem er að finna í lagafrumvarpi þessu og ég hef nú gert nokkra grein fyrir stuðli mjög að því að eðlilegt samræmi verði milli alvarleika brots og þeirra viðurlaga sem beitt er og tryggi um leið að viðurlögin hafi fullnægjandi og nauðsynleg fælingaráhrif. Ég vonast því til að frumvarpið fái hér framgang og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og umfjöllunar hjá hv. sjávarútvegsnefnd.