133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingalög.

296. mál
[15:55]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið í þessari umræðu. Þingmenn þekkja málið vegna þess að það er endurflutt nú og þingmenn gátu kynnt sér það á síðasta þingi.

Hér er um það að ræða að aðlaga íslenska löggjöf að tilskipun frá Evrópusambandinu um þetta málefni og auðvitað er þetta frumvarp í takt við þá tilskipun og þá strauma sem á bak við hana liggja.

Varðandi það hvort gjaldtakan fyrir upplýsingar samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps teljist vera þjónustugjald þá er það vissulega svo. Það er talað um að taka megi gjald sem nemi að hámarki kostnaðinum við að afhenda, afrita eða dreifa upplýsingum auk hóflegra afskrifta. Þetta er sem sagt þjónustugjald.

Varðandi sérleyfisgjöldin þá er mér ekki kunnugt um hvort slíkur samningur liggi einhvers staðar fyrir í kerfinu. Ég hygg að svo sé ekki en ef svo er kemur það væntanlega í ljós við umfjöllun um málið í nefndinni hvort eitthvað slíkt liggur fyrir, sem mér er ekki kunnugt um.

Varðandi matvælarannsóknirnar þá er þar um að ræða ohf.-fyrirtæki, opinbert hlutafélag, og um það gilda sérstakar reglur. Upplýsingaskylda slíkra félaga er meiri en almennra hlutafélaga og það félag er vissulega opinber aðili í venjulegum skilningi.

Ég þakka undirtektirnar og vona að málið fái greiða afgreiðslu í þingnefndinni að þessu sinni.