133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

295. mál
[16:33]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þetta mál er óbreytt frá því í fyrra þannig að ég mun að einhverju leyti fylgja fordæmi hæstv. forsætisráðherra og flytja a.m.k. efnislega sömu ræðu og í fyrra. Það hefur nánast ekkert tillit verið tekið til þeirra athugasemda sem ég færði fram í umræðunni síðasta vor. Áður en að því kemur vil ég ítreka hversu mikilvægt þetta mál er, þ.e. hvaða umgjörð við búum tækni, vísindum og framþróun á öllum sviðum þjóðlífsins.

Ég get líka tekið undir það sem kom hér fram hjá fyrri ræðumanni, hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, að það virðist sem varðandi framþróun og vísindi og tækni hafi menn ekki landið allt í huga þegar störfum er fjölgað á þessu sviði. Við og við koma þó fram eins konar kippir þar sem menn sjá að sér og setja upp eitt og eitt setur. Það er eins og það vanti virkilegan kraft og meiningu í þau störf. Það er verið að fjölga störfum um 100%, en hvað er þá störfunum fjölgað um mörg? Kannski tvö störf, það voru tvö störf fyrir og í allri prósentuumræðu, t.d. um störf á Ísafirði og víðar, eru menn að fjölga um tugi og jafnvel hundruð prósenta störfum, kannski úr tveimur og í fjögur. Þetta ber að hafa í huga.

Fyrsta gagnrýnin sem ég kom með í umræðunni um frumvarpið síðasta vor var að í 1. gr. þyrfti að taka fram að lögin næðu til alls landsins. Mér finnst það mjög merkilegt og eflaust er það tímanna tákn þegar sagt er að það eigi að auka lífsgæði í landinu öllu — það þarf að taka það fram. Það er eins og að stjórnarherrarnir séu hættir að gefa sér að það sé í rauninni reglan þegar þeir koma með ný frumvörp að það eigi að líta til landsins alls. Ef það kemur fram frumvarp með því marki að það eigi að líta til fleiri átta en einungis höfuðborgarsvæðisins þarf að taka það sérstaklega fram. Mér finnst það í rauninni vera tímanna tákn.

Það sem mér finnst vera mjög umhugsunarvert í umræðunni og að fólk ætti að líta til er spurningin: Um hvað snúast vísindi? Snúast vísindi ekki um gagnrýna hugsun? Jú, þau eiga að gera það en frumvarp ríkisstjórnarinnar, sem ætti að vera til þess að styrkja umgjörð um tækni og vísindi og nýsköpun, virðist byggjast á því verið sé að fjölga pólitískum fulltrúum. Mér finnst það mjög sérstakur útgangspunktur hjá ríkisstjórninni og erfitt að átta sig á hvert er verið að fara. Það væri rétt að hæstv. forsætisráðherra greindi frá því.

Þetta hefur komið fram víðar í samfélaginu, m.a. í þeirri stofnun sem á að verða miðstöð gagnrýninnar hugsunar, Háskóla Íslands. Manni finnst stundum eins og að menn hafi þetta ekki að leiðarljósi, heldur láti jafnvel hagsmunasamtök koma með fjármuni inn í háskólann til þess að greiða fyrir rannsóknir. Það vita allir að ef hagsmunasamtök koma með mikla fjármuni og greiða fyrir stöðu háskólamanna er mjög erfitt að koma með niðurstöður sem ganga þvert á hagsmunasamtökin sem greiða stöðuna.

Ég vil þá minnast á þegar Háskóli Íslands fór til LÍÚ og fékk greidda stöðu til að rannsaka ákveðna þætti í sjávarútvegi er varða réttmæti auðlindanna og auðlindafræða. Það er mikið umhugsunarefni, að Háskóli Íslands skuli ekki sjá að sér. Þetta er eitt mesta deilumál sem hefur verið uppi í þjóðfélaginu, rétturinn til auðlinda sjávarins. Að Háskóli Íslands skuli fara með þessum hætti til LÍÚ til þess að fá greidda stöðu í rannsóknum á náttúruauðlindum er náttúrlega mjög umhugsunarvert. Í þessu ættu menn að hafa varann á sér.

Það eru fleiri þættir sem eru umhugsunarverðir hvað varðar tækni og rannsóknir og vísindi, t.d. hvernig skipað er í stjórnir rannsóknastofnana. Við sjáum að þar er einnig hið sama upp á teningnum, hagsmunasamtök sitja t.d. í stjórn Hafró. Þá er ekki að sökum að spyrja, sjaldnast ganga „vísindarannsóknirnar“ þvert á hagsmuni þeirra samtaka sem sitja í stjórninni. Þetta er mikið áhyggjuefni, sérstaklega vegna þess að ítrekað hafa verið kveðnar niður aðrar skoðanir en hinar viðteknu, og það hafa ekki fengist neinir fjármunir til rannsókna á fræðum sem eru langt frá því að vera hafin yfir gagnrýni. Það hafa komið fram rökstuddar ályktanir um að t.d. sú ráðgjöf sem hefur komið frá Hafró hafi ekki gengið eftir, m.a. þegar hún týndi mörg hundruð þúsund tonnum af þorski um síðustu aldamót. Hvað var gert þá? Þá var sóttur maður til Bandaríkjanna sem hafði tengsl við stofnunina og hann bjó til skýrslu þar sem einhver fræðileg réttlæting var búin til á því að menn töpuðu mörg hundruð þúsund tonnum af þorski. Þá var búið til nýtt hugtak, aukinn veiðanleiki sem ég veit ekki hvað er. Ég hef heldur ekki fengið nokkra skýringu á því hvað það væri. Það er athyglisvert að þessi rannsókn er síðan kynnt sem algildur sannleikur. Þeir sömu menn og kynntu rannsóknina eru síðan fengnir til þess að blessa ýmislegt í starfsháttum sem eru langt frá því að vera hafnir yfir gagnrýni meðan aðrir sem hafa komið fram með málefnalega gagnrýni fá enga fjármuni. Það er vissulega pólitík og hagsmunir í vísindum.

Mér finnst það vera hálföfugsnúið í þessari umræðu að það eigi að fjölga pólitískum fulltrúum í ráðinu vegna þess að við erum að tala um að einfalda stjórnkerfið. Það er m.a. verkefni „Einfaldara Ísland“ og það er verið að tala um að einfalda stjórnskipunina, fækka ráðuneytum en svo koma menn og fjölga pólitískt skipuðum fulltrúum í vísinda- og tækniráði sem ætti einmitt að vera hafið yfir slíka gagnrýni. Þetta er rétt eins og að menn fengju hagsmunaaðila sem væru að flytja inn vímuefni — við getum tekið það sem dæmi — til þess að gera úttekt og einhverjar rannsóknir á lýðheilsufræðum. Við getum nefnt fleiri dæmi. Ef einhver staða í háskólanum, t.d. í samkeppnisrétti, væri skipuð af félögum sem hefðu ítrekað brotið af sér í samkeppnismálum þá vissu allir hvaða niðurstöðu mætti vænta þegar hún loksins kæmi.

Það er að mörgu að hyggja í þessu máli og mér finnst vanta inn í umræðuna að menn spyrji sig gagnrýninna spurninga þegar vísindi og tækni eru annars vegar. Mönnum finnst bara sjálfgefið að auka flokkspólitísk tök á vísindum og tækni. Ég er hins vegar ekkert sammála því. Við höfum dæmin fyrir okkur, m.a. í fyrrum Sovétríkjunum þar sem menn voru með vísindamenn á sínum snærum, t.d. Lychenko sem reyndi að beygja líffræðina undir vald kommúnistaflokksins. Það gekk ekki. Mér finnst stundum, t.d. í umræðu um hafrannsóknir, sem reynt sé að beygja lífríki sjávarins undir einhver hagfræðileg rök og undir rök hagsmunaaðila. Þetta gengur bara ekki upp.

Við horfum á það að vísindastofnun sem hefur yfir að ráða gríðarlega háum fjárhæðum gerir t.d. ekki athugasemd við að allar heimildir séu fluttar frá heilu landsfjórðungunum og þeim safnað saman á annan. Eins og hægt sé að flytja fiskimiðin frá einum stað til annars, bara vegna þess að peningarnir eru fluttir héðan og þaðan af landinu. Þetta gengur ekki upp og það vantar virkilega gagnrýni hjá hinu opinbera á þessa hluti. Einnig vantar gagnrýni á ýmislegt hvað varðar byggðastefnuna. Mér finnst þetta vera hlutir sem samtvinnast. Þetta eru ákaflega mikil vonbrigði, að við getum ekki rætt þessi mál í jákvæðara andrúmslofti, þ.e. að menn fái fjármagn og styrki til þess að rannsaka ákveðin atriði án þess að vera alltaf með hagsmunaaðila ofan í hálsmálinu á sér. Þetta gengur ekki upp. Við sjáum stundum, eins og gerðist á þessu ári, að sett var á stofn ný rannsóknastofnun sem að nafninu til átti að vera óháð og mæta að einhverju leyti þeirri gagnrýni sem ég færi hér fram, t.d. á starfshætti Hafrannsóknastofnunar. Hún var sett á stofn vestur á Snæfellsnesi og allt gott um það að segja. Ég kynnti mér þessa stofnun og ræddi við forstöðumanninn og þá kom í ljós að það á greinilega ekki að spyrja spurninga sem varða virkilega gagnrýnisverða hluti, um grundvöll þeirrar fiskveiðistjórnar sem hefur nákvæmlega engu skilað og bara tjóni.

Ég ræddi aðeins fyrr um þá menn sem skiluðu blessuninni eða stimpluðu þennan aukna veiðanleika sem ég veit ekki alveg nákvæmlega hvað er. Andrew Rosenberg heitir sá sem stimplaði skýrslu Hafró um að það væri alveg eðlilegt að tapa mörg hundruð þúsund tonnum út úr þorskabókhaldinu, en það var ekki nóg með það heldur munaði þennan ágæta vísindamann ekki um að rannsaka þorskstofn 150 ár aftur í tímann. Mér finnst það mjög merkilegt, eða öllu heldur eðlilegt að maður sem getur reiknað út stofna 150 ár aftur í tímann geti síðan reiknað út og fundið eitthvert nýtt hugtak eins og aukinn veiðanleika og blessað það að Hafrannsóknastofnun tapi mörg hundruð þúsund tonnum út úr fiskabókhaldi sínu. Það er eftir öðru hvað það varðar.

Af því að við ræðum um vísindi og ég er kominn í hafrannsóknir vil ég nefna að á dögunum kom merkileg skýrsla í Science þar sem fjallað var um að allir fiskstofnar heimsins yrðu uppurnir 2048. Það er svo merkilegt að þessi skýrsla er einmitt samin af hópi vísindamanna sem hefur náin tengsl við Hafró og reiknaði m.a. út fiskstofna 150 ár aftur í tímann og blessaði allt með auknum veiðanleika, þetta mörg hundruð þúsund tonna tap á þorskinum út úr fiskabókhaldinu. Síðan kom á daginn að þessi spá um að allir fiskstofnar yrðu uppurnir 2048 var bara beita, það var ekkert á bak við þetta, þetta var bara beita fyrir fjölmiðla. Morgunblaðið beit á agnið og birti fréttina á forsíðu sinni og er ekkert nema gott um það að segja. Þá kom upp úr dúrnum að þetta var allt bull og vitleysa og þeir sem sömdu skýrsluna sögðu bara frá því, óvart í skeytum sínum á milli sem bárust til fjölmiðla, að þetta væri ákveðin beita til þess að fá fjölmiðla til að bíta á til þess að gera frétt úr málinu, að það yrðu að vera einhver endalok á okkar kynslóð þannig að fjölmiðlar birtu veglega frétt um málið sem þeir og gerðu. Það sem er svo merkilegt er að síðan þegar það kom upp úr dúrnum að þetta væri allt tóm della og vitleysa birtist bara örlítil klausa og leiðrétting, bara örlítil þannig að enginn tók eftir henni. Þetta hefði átt að vera stórfrétt vegna þess að sömu vísindamenn og bjuggu til þennan vitleysisspádóm eru þeir sömu og blessuðu starfshætti Hafró. En á meðan fá aðrir sem hafa haft mjög vel rökstudda gagnrýni á þessa starfshætti enga fjármuni. Það er einmitt þetta sem frumvarpið sem við ræðum hér kemur inn á, að það er verið að fjölga og auka tök flokkspólitíska valdsins á vísindum og því sem rannsakað er og þeirra gagnrýnu spurninga sem bornar eru upp. Mér finnst það vera mergur málsins í þessari umræðu.