133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:32]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því. Að sjálfsögðu á lifandi safn að gegna mikilvægu hlutverki gagnvart nemendum og er einmitt mjög gaman að fara með ungmenni inn á skemmtileg söfn og ekki síst náttúrufræðisöfn.

Allt að því 17 nefndir hafa starfað og auðvitað er nauðsynlegt að fara yfir það starf sem þær nefndir hafa skilað. Ég lít svo á að forstöðumanninum sé einmitt ætlað að fara yfir það og reyna að gera það hratt. Ég hef trú á að með einn slíkan öflugan skipstjóra sé það vænlegra til þess að menn taki fljótt ákvörðun.

En að lokum snýst þetta um peninga. Ég held hins vegar að þeir peningar þurfi ekki að vera svo miklir því safnið á þau verðmæti sem eru á Hlemmi og með því að selja þar og nota þann pening til að byggja upp metnaðarfullt hús held ég að við þurfum ekki að bæta svo óskaplega miklu við.