133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:45]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það að viðeigandi væri að gera þetta í tilefni af afmælishátíð Jónasar Hallgrímssonar, fyrsta náttúrufræðingsins, sem var mikið á faraldsfæti og væri hann uppi í dag þá væri hann tíður gestur á Keflavíkurflugvelli á leið til Kaupmannahafnar eða heim aftur. Þegar ég nefni Keflavíkurflugvöll þá er það einungis vegna þess að þar á íslenska ríkið tugi þúsunda fermetra í húsnæði þar sem er bæði hátt til lofts og vítt til veggja og við eigum auðvitað að skoða hvort það geti hentað að koma upp glæsilegu og metnaðarfullu náttúruminjasafni þar. Kannski gengur það og kannski gengur það ekki en við eigum a.m.k. að skoða það. Ég vek athygli á því að það er jafnlangt frá Reykjavík til Keflavíkur eins og öfugt og við erum að tvöfalda Reykjanesbrautina þannig að vegalengdir í þessu samhengi eru ekki vandamál. (JóhS: Styttra frá Hafnarfirði.) Styst frá Hafnarfirði, já.