133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

231. mál
[19:18]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að henni fannst hafa tekið langan tíma að koma þessu máli í lagabúning. Ég get tekið undir það en það kom fram í framsöguræðu minni að þó nokkur tími hafi farið í að reyna að ná samstöðu um málið meðal aðila vinnumarkaðarins í tengslum við kjarasamninga. Það gekk hins vegar ekki nógu vel upp og þess vegna var ákveðið að smíða þetta frumvarp. Félagsmálaráðuneytið fól Rannsóknasetri vinnuréttar- og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst að semja drög að frumvarpi. Þetta frumvarp byggir á þeim drögum en við gerð frumvarpsdraganna, ég vil taka það fram, var haft samráð við aðila vinnumarkaðarins.

Hér er höfð hliðsjón af þeirri löggjöf sem þegar gildir og varðar upplýsingagjöf, samráð og þátttöku starfsmanna, eins og kemur fram í frumvarpinu. Markmiðið er fyrst og fremst að innleiða með fullnægjandi hætti í íslenskan rétt þær reglur sem tilskipunin mælir fyrir um. Auk þess verði þeim aðilum sem reglurnar ná til veittur sveigjanleiki til að hrinda upplýsingagjöf og samráði í fyrirtækjum í framkvæmd hér á landi. Ég hygg að ræða síðasta hv. þingmanns sem talaði hafi fjallað um það.

Kannski má segja að hér sé ákveðin málamiðlun í gangi í þessu frumvarpi. Aðilar vinnumarkaðar náðu ekki samkomulagi um málið við gerð kjarasamninga. Það er von mín að þetta frumvarp, verði það að lögum, verði mikilvægt skref á þeirri vegferð sem t.d. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fjallaði um. Ég get að mörgu leyti tekið undir margt af því sem hún sagði. Ég lít svo á að við innleiðum þessa tilskipun með það að markmiði að efla samráð starfsmanna og atvinnurekenda. Ég tel það stóran áfanga og horfi til þess að í framhaldinu nái viðkomandi aðilar að þróa málin áfram og ná saman um að þessi mál verði í lagi.