133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[19:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að víkja frekar að öryggismálum, sem eru til umfjöllunar í ákvæðum frumvarpsins, og árétta hversu mikilvægt er að þau séu í lagi. Þetta var einfalt meðan við höfðum Landhelgisgæsluna og öll verkefni hennar voru á opinbera ábyrgð. Þetta var einfalt meðan við vorum með fjarskiptakerfið, Landssímann og fjarskiptastöðvarnar í opinberri eigu. Öryggismálin voru því á ábyrgð hins opinbera.

Síðan hefur þetta breyst. Það er búið að einkavæða fjarskiptakerfið. Það er búið að einkavæða Landssímann. Það er búið að einkavæða alla þjónustu sem að honum lýtur. Eftir það lýtur þessi þjónusta lögmálum markaðarins, þ.e. því sem er arðbært að gera. Ekki bara það heldur, ef eitthvað bilar eða eitthvað gerist í þessari þjónustu þá er það viðskiptaleyndarmál og má ekki segja frá því.

Neyðarlínan er ekki heldur að fullu í eigu og á ábyrgð ríkisins. Sem betur fer var hún að hluta til dregin úr því einkavæðingarferli sem þau verkefni voru sett í á sínum tíma. Menn áttuðu sig á því að það gengur ekki að einkavæða öryggisþjónustu landsins. Það bara gengur ekki að það sé háð arðsemiskröfum fyrirtækja hvort öryggisþjónustan uppfyllir kröfur eða ekki.

Má ég nefna dæmi. Í kringum 20. september, ég man ekki nákvæmlega hvaða dag, bilaði ljósleiðari á Norðurlandi, þetta var reyndar í Húnavatnssýslum, með þeim afleiðingum að öryggiskerfi sjófarenda, einmitt þessi vaktstöð, fyrir öllum Vestfjörðum og Norðurlandi frá Látrabjargi að Langanesi féll út. Einnig féllu niður útsendingar sjónvarps á mörgum stöðum á sama tíma, sem er einnig hluti af öryggiskerfi landsmanna. En vaktstöð siglinga hefur það hlutverk að fylgjast með hvar skip eru og er gríðarlega mikilvægt öryggistæki í því sambandi.

Þegar spurt var hvað væri að, hvar bilunin væri, þá var enginn til svara að hálfu Símans. Bæði Neyðarlínan og Landhelgisgæslan sögðust ekki geta fengið upplýsingar um það og bentu á, eins og fulltrúi þeirra gerði í fréttum, að Síminn væri rekinn á markaðsgrunni og erfitt að fá upplýsingar auk þess sem þjónustan væri bundin við eina línu. Ef hún færi þá væri í sjálfu sér ekki sjálfkrafa stillt á aðra línu eða aðra möguleika og ef auka ætti öryggið þyrfti að borga meira.

Þannig stóð þessi bilun í rúmlega hálfan sólarhring, 15 klukkustundir. Þegar forstöðumaður Neyðarlínunnar var spurður hvort hann hefði ekki frétt af þessari bilun og að þar væri vaktstöð siglinga úti fyrir öllu Norðurlandi þá sagði hann: Nei, ég heyrði þetta bara í fréttum. Hann var svo heppinn að hann var þá staddur í Reykjavík þar sem útvarpssendingar voru í lagi. Ef hann hefði verið á Norðurlandi þá hefði hann ekki frétt af því að þetta væri allt bilað því sendingar lágu niðri. Það er því greinilega eitthvað sem þarf heldur betur að laga í uppbyggingu á þessu öryggisneti.

Einkavæðingaráráttan, einkavæðingaræðið hef ég kallað það á þessum vettvangi, í fjarskiptamálum og í öryggismálum, sem hæstv. ráðherra hefur því miður verið of veikur fyrir og einkavætt mikilvæga þjónustu, leiðir til minna öryggis og lélegri þjónustu.

Ég tel því mjög mikilvægt, og árétta það sem ég sagði áðan, að samgöngunefnd fái greinargott yfirlit yfir tilhögun og skipan öryggismála frá A til Ö. Það verður ekki liðið að á grundvelli einkavæðingar, markaðshyggju og arðsemiskrafna, sé ekki hægt að halda uppi því fullkomna öryggisneti sem völ er á. Þetta var hægt. Það var hægt þegar við höfðum Landssímann. Hann var ekkert að spekúlera í því hvort græða mætti meira á þessari línunni en hinni. Nú er búið að einkavæða þetta og meira að segja virðist hver lína í strengnum rekin sem sérfyrirtæki og verður að kaupa það dýrum dómum ef ein línan bilar. Þá verður að kaupa sig inn á næstu línu dýrum dómum. Þetta þurfti ekki meðan að Landssíminn átti þetta.

Sú tilhögun sem núna er á öryggismálum, með einkavæðingu og arðsemiskröfur í fyrirrúmi, gengur að mínu viti ekki upp. Það er mikilvægt að við athugum það. Það gengur ekki að bilanir í fjarskipta- og öryggiskerfi þjóðarinnar séu viðskiptaleyndarmál. Það gengur ekki.

Þess vegna tel ég mikilvægt að árétta að nefndin fari mjög rækilega í gegnum alla þætti þessa máls, uppbyggingu, framkvæmd og stöðuna á þessu öryggiskerfi sem m.a. þetta frumvarp byggir á að sé í lagi.