133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[13:59]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs til að vekja athygli þingheims á fyrirhugaðri byggingu álvers og svokallaðs áltæknigarðs norðan Suðurstrandarvegar rétt vestan við Þorlákshöfn. Þar hefur sveitarfélagið Ölfus veitt einkahlutafélaginu Arctus vilyrði fyrir um 150 hektara lóð í þessu skyni og svo virðist sem eitt eða jafnvel fleiri af hinum stóru orkufyrirtækjum okkar hafi veitt vilyrði fyrir orkuafhendingu sem jafnast á við hálfa Kárahnjúkavirkjun, 300 megavött, til verkefnisins.

Í viðtölum við sveitarstjórann, Ólaf Áka Ragnarsson, segir að sveitarfélagið og Arctus hafi átt í viðræðum við orkuframleiðendur, ekki sé búið að ganga frá samningum um raforkuverð en komnar séu tölur sem menn telji ásættanlegar. Verkefnið er að fara í umhverfismat þessa dagana. Því á að ljúka á árinu 2009, þá eiga framkvæmdir að hefjast, orkuafhending á að vera til reiðu á árinu 2011, eftir fimm ár. „Fjöldi beinna starfa við orkugarðinn mun skipta hundruðum og fjöldi afleiddra starfa á svæðinu verður síst minni,“ segir sveitarstjórinn í viðtali við Sunnlenska fréttablaðið. Kannast einhver við tóninn?

Var einhver að tala um að stóriðjustefnan væri dauð? Sannleikurinn er sá að hún er sprelllifandi þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar ráðherra um annað, a.m.k. hafa fréttir af andlátinu verið stórlega ýktar. Í fjölmiðlum hefur komið fram að það er stóruiðjunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem hefur haft forgöngu um markaðssetningu Þorlákshafnar sem kjörsvæði undir stóriðju. Þar hefur birst á þeirra vegum skýrslan „Sveitarfélagið Ölfus ákjósanlegur kostur fyrir orkufrekan iðnað“ og þessa skýrslu er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins. Þar er líka að finna auglýsingabækling um „Suðurland tækifæranna“. Andri Snær Magnason rithöfundur vakti athygli á þessum auglýsingabæklingi í fundaherferð sinni um landið í vor og í sumar og hann gerði það líka sérstaklega á þingi Samtaka iðnaðarins í byrjun október.

Andri spurði, sem vonlegt er: Hvaðan á að taka þessa orku? Því er til að svara að á bls. 8 í bæklingnum eru taldir upp þeir virkjunarkostir sem til greina koma, auðvitað allir þeir sem eru í undirbúningi og rannsóknum og vinnslu. Síðan er hér fyrirsögn: „Mögulegir virkjunarkostir“. Þetta er sem sagt Suðurland tækifæranna, Ölfus ákjósanlegur kostur fyrir orkufrekan iðnað. Það er Markarfljót, 105 megavött, Skaftárvirkjun, 140 megavött, Kerlingarfjöll, 75 megavött, Torfajökull, 700 megavött og Krýsuvíkursvæðið, 300 megavött. Þetta er það sem í boði er.

Hvaða heimild hefur eitt sveitarfélag til að auglýsa Langasjó, virðulegur forseti, eða Kerlingarfjöll sem tilbúnar orkulindir fyrir orkufrekan iðnað? Iðnaðarráðherra hefur vísað frá sér allri ábyrgð á stóriðjustefnunni og hefur vísað henni yfir á sveitarfélög og orkufyrirtækin. Þetta eru sem sagt nýju fötin Framsóknar sem við erum að horfa hér framan í. Það eru sem sagt sveitarstjórnir í litlum og meðalstórum sveitarfélögum sem eiga að taka upp viðræður við orkufyrirtækin og erlend auðfyrirtæki um uppbyggingu á nýjum álverum.

Hverjir skyldu það svo vera sem á að tala við? „Einkahlutafélagið Arctus er tengt fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum í álframleiðslu,“ er haft eftir sveitarstjóra Ölfuss. Félagið var stofnað 2004 og er í eigu Jóns Hjaltalíns Magnússonar verkfræðings og fleiri. „Fjársterk risafyrirtæki standa að baki þessu fyrirtæki,“ segir í Sunnlenska fréttablaðinu, og ég vek athygli á því að fyrir aðeins þremur árum var fyrirtæki Jóns Hjaltalíns Magnússonar, eins eiganda Altechs, að 80% hlut í eigu Rusals sem þykir ekki félegur félagsskapur í alþjóðavæðingunni.

Af þessu tilefni er spurt, virðulegur forseti: Hefur iðnaðarráðuneytið tekið þátt í undirbúningi þessara framkvæmda, og þá á hvaða hátt? Hafa orkufyrirtækin upplýst ráðuneytið um hvar stendur til að afla 300 megavatta orku í þessu skyni? Hafa erlendir fjárfestar leitað til ráðuneytisins vegna þessara áforma og sérstaklega spurt um aðkomu Rusals að því? Hvar í röð nýframkvæmda telur ráðherra nú heppilegt að setja þetta nýja álver niður?